152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

niðurstöður úttektar á stöðu og áskorunum í orkumálum með vísan til markmiða og áherslna stjórnvalda í loftslagsmálum, munnleg skýrsla umhverfis-, orku og loftslagsráðherra. - Ein umræða.

[16:07]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu og skýrslugjöf hér og þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa skýrslu sem ég held að hafi verið afskaplega vel til fundið að láta forma. Sérstaklega er ástæða til að hrósa því hversu hratt og vel var gengið til verks. Það heyrir til undantekninga að skýrsluvinna taki jafn skamman tíma og hér á við og sé á sama tíma unnin jafn vel og raunin er í þessu tilviki. Það hafa nú einhverjir komið upp í þessari umræðu og reynt að undirstrika sérstaklega að hér sé um stöðuskýrslu að ræða en ekki stefnu stjórnvalda og á sama tíma og það er auðvitað hárrétt þá hef ég ákveðnar áhyggjur af því með þær skynsamlegu sviðsmyndir sem eru teiknaðar upp þarna að það gangi ekki allir í takt í ríkisstjórnarhópnum við að ná þeim markmiðum sem er svo augljóst að við þurfum að ná hvað aukna framleiðslu á grænni orku varðar.

Mig langar, af því að það er knappur tími sem ég hef hér í þetta skiptið, að brýna hæstv. ráðherra til þess af gera það nú að meginmarkmiði sínu, og ég held að það sé það raunar en ég ætla engu að síður að brýna hæstv. ráðherra til þess, að ná áfram málum er snúa að rammaáætlun til þess að sá geiri sem starfar í orkuöflun landið um kring — þetta er auðvitað mjög ólíkt, bæði stórir orkuframleiðendur og síðan þessi mikli fjöldi smærri orkuframleiðenda sem ekki fellur undir rammaáætlun, en þeir stóru aðilar sem eru með verkefni sem falla undir rammaáætlun hafa verið í lausu lofti ansi lengi. Eins og ég hef sagt í ræðum áður er það mjög sérstök staða að nú sé lögð fram rammaáætlun efnislega óbreytt í fjórða skipti. Það eru fyrrverandi hæstv. ráðherra Sigrún Magnúsdóttir, fyrir hönd Framsóknarflokksins, Björt Ólafsdóttir, þáverandi umhverfisráðherra, fyrir hönd Bjartrar framtíðar og ég held að hún hafi ekki verið rædd á því þingi en lögð fram, síðan kom hæstv. ráðherra síðasta kjörtímabils, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, og síðan núna hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsmálaráðherra Guðlaugur Þór Þórðarson, sem leggja fram rammaáætlun efnislega eins. Ég held að það verði mikið tjón af því ef við förum í gegnum þetta þing, sem styttist nú í annan endann að teknu tilliti til þess tveggja vikna þinghlés sem fram undan er, ef það endar þannig að við klárum þetta vorþing án þess að 3. rammaáætlunin hafi verið leidd í jörðu, ef svo má segja.

Ég vil bara brýna hæstv. ráðherra til að leggja ofurþunga á að ná þessu máli fram og í gegn til þess að það sé þá hægt að komast áfram með 4. rammann. Því að ef það mistekst núna þá held ég að fyrsti tíminn sé bestur til að kasta inn handklæðinu og segja þessa tilraun, sem er að mörgu leyti svo góð og skynsamleg, að búa til þetta verkfæri sem átti að leiða mismunandi sjónarmið fram og ná jafnvægi og ballans í samfélaginu hvað varðar orkunýtingarkosti, þá er ég hræddur um að það sé endanlega ónýtt. Ég vil vara við því að það verði farin leið sem nefnd hefur verið hér í þingsölum, að stækka biðflokkinn að miklum mun, væntanlega með verkefnum bæði úr verndar- og nýtingarflokki. Ég held að þá séum við að færa okkur með þeim hætti aftar í farveginum og það verði mjög erfitt fyrir okkur að komast áfram með þeim hætti sem nauðsynlegur er.

Ég vildi nota þær fáu mínútur sem ég átti hér í lokin til að brýna hæstv. ráðherra í þessum efnum og fagna því að þessi skýrsla hafi verið unnin því að hún er unnin af mikilli fagmennsku en hratt og af aðilum sem þekkja vel til og eru fljótir að setja sig inn í hlutina, þannig að þetta er gríðarlega góður grundvöllur að byggja ofan á. En það sem hræðir mig er tónninn sem kemur m.a. frá samstarfsaðilum hæstv. ráðherra, sem mér finnst vera svona frekar í þá veruna að enn skuli draga lappirnar hvað það varðar að koma styrkari stoðum undir frekari framleiðslu grænnar orku á Íslandi.