152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[19:18]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Nú hafa þau tíðindi orðið að náðst hefur samkomulag um hvernig unnið verði úr þessu máli áfram, þ.e. að það fari til nefndar og ákveðin atriði, sem við lögðum til að þyrfti að skoða, verði skoðuð. Það er auðvitað mjög jákvætt. En gallinn við þetta er að ég mun ekki hafa tíma til að fara yfir stefnu danskra jafnaðarmanna í málefnum hælisleitenda með eins ítarlegum hætti og ég hafði hugsað mér og eitt og annað til viðbótar gæti hugsanlega fallið milli skips og bryggju í ljósi þess að takmarka þarf ræðutíma. En ég ætla að reyna að nýta þann tíma sem ég þó hef til ráðstöfunar til að fara mjög stuttlega yfir þessa stefnu dönsku kratanna. Ég var búinn að fara yfir innganginn en ég ætla að nefna hér nokkur meginatriði úr stefnunni og hugsanlega getum við rætt það áfram við 3. umr. málsins.

Hluti af þessari stefnu snýst um að koma á móttökustöð utan Evrópu. Þar voru dönsk stjórnvöld, núverandi ríkisstjórn, búin að ræða við stjórnvöld í nokkrum löndum. Eitt þeirra landa er Rúanda en þau tíðindi urðu fyrir nokkrum dögum að bresk stjórnvöld gerðu samning við Rúanda um móttökustöð þar í landi fyrir þá sem flýja Frakkland til að sækja um hæli í Bretlandi. Verður áhugavert að fylgjast með því hvort dönsk stjórnvöld komi til með að taka þátt í því en þau höfðu hvatt önnur Evrópulönd til að fylgja sinni stefnu og koma með í það m.a. að setja upp slíkar móttökustöðvar.

Í þessari stefnu kemur líka fram að sett skuli þak á hversu margir útlendingar sem ekki eru vestrænir, eins og það er orðað hér, geti sest að í Danmörku — með „ekki vestrænir“ er væntanlega ekki átt við uppruna fólks heldur verið að vísa til landa utan Evrópska efnahagssvæðisins og annarra þeirra landa sem hafa sérstaka samninga við Danmörku um dvöl þar. Það er líka farið nokkuð ítarlega yfir önnur áform um að ná stjórn á fjölda flóttamanna sem leita til Danmerkur.

Gerðar eru strangar kröfur varðandi fjölskyldusameiningar. Fyrir því eru ýmsar ástæður sem ég hafði hugsað mér að rekja hér en hef ekki tíma til í ljósi nýgerðs samkomulags. Það eru áform um að senda fleiri hælisleitendur heim og stofna sérsveit lögreglu í þeim tilgangi. Danmörk mun svipta lönd sem ekki taka við fólki, þ.e. fólki sem er sent til síns heima, þróunaraðstoð. Landamæraeftirlit verði aukið og Schengen-samkomulagið endurskoðað þar sem hvert ríki stjórni eigin landamærum. Þetta er náttúrlega mjög stórt grundvallaratriði í þessum málum öllum, landamæraeftirlit, og það er eiginlega synd að ég skuli ekki hafa tíma til að fara ítarlega yfir það því að það er margt sem ég hafði hugsað mér að segja í umræðu um það. En þetta á við hjá þeim, eins og þeir orða það, á meðan ESB stendur sig ekki á ytri landamærunum — hugsa sér að danskir kratar skuli skrifa þetta inn í stefnuna. En auðvitað er þetta satt, við höfum séð þetta á undanförnum árum.

Jú, það verða settar reglur um að innflytjendur verði að leggja sitt af mörkum áður en þeir fái rétt á bótum — annað stórt atriði sem hefði mátt ræða hér lengi ef tími hefði gefist til. Dönsku kratarnir gera einnig kröfu um að flóttamenn með tímabundna landvist leggi sitt af mörkum til samfélagsins en þurfi samt að snúa heim þegar aðstæður í heimalandinu leyfa. Þótt um sé að ræða tímabundna landvist þá þurfa menn samt að leggja sitt af mörkum til samfélagsins.

Ég hef bara nefnt hér nokkur atriði úr þessari umfangsmiklu stefnu, sem er nú fleiri blaðsíður. Ég hafði hlakkað til, frú forseti, að fara yfir þetta allt og ræða hvert atriði fyrir sig. En maður getur ekki alltaf haft allt eins og maður vill og hér er þó komið samkomulag um hvernig þetta mál verði unnið áfram.