Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

listamannalaun.

408. mál
[19:35]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Ég kem bara í þessa örstuttu ræðu hér til að fagna þessu. Þetta er auðvitað ekki stórt skref en þetta er mikilvægt skref. Hér er verið að tala um, eins og hv. þm. Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir nefndi, hækkun úr 1.600 í 1.800 gildi, verður bara að segja, fyrir árið 2022. Það er um 15% hækkun. Það er sérstaklega lagt til að það sé hugað að ungu fólki undir 35 ára aldri sem er margt, kannski ekki allt, að stíga sín fyrstu skref á listabrautinni. Það þarf auðvitað ekki að fjölyrða um gildi lista þó að það sé kannski fulllítið talað um þær hér í þessum sal, en þær eru spegill samtímans og í þeim birtist oft mikilvæg samfélagsgagnrýni. Þær eru sístækkandi atvinnuvegur en síðast en ekki síst, sem gleymist nú stundum að nefna, eru þær mjög mikilvægar í sjálfu sér. Það er sem betur fer löngu liðinn sá tími að við mennirnir látum okkur nægja að hafa bara fæði, klæði og húsnæði. Við þurfum auðvitað líka næringu fyrir sálina og listin og menningin og þátttaka í þeim er orðin okkur jafn mikilvæg og að draga andann. Verkefnið fram undan er að gera öllum kleift, börnum, unglingum og fullorðnu fólki, tækifæri til að njóta þess án þess að líða fyrir það efnahagslega.

Menning og listir voru meðal þeirra greina sem fóru verst út úr kófinu og seint á síðasta ári birtist mjög athyglisverð skýrsla sem sýndi að það væri skuggalega hátt brottfall úr greininni, mögulega varanlega. Þetta brottfall virtist koma verst niður á konum, sem er auðvitað bagalegt. Þetta er auðvitað grafalvarlegur hlutur af því að það var meginverkefni stjórnvalda, og um það voru allir flokkar sammála í Covid-aðgerðum síðustu tveggja ára, að koma fólki og fyrirtækjum í gegnum skaflinn, þennan tímabundna skafl, eins og það var orðað, þangað til plágan gengi yfir. Það er mjög mikilvægt að atvinnugreinar og ekki síst menning og listir verði ekki fyrir varanlegum skaða, að greinarnar bíði ekki varanlegan hnekki. Auðvitað er það sérstaklega mikilvægt fyrir fólkið sem starfar í greinunum en það er líka mjög mikilvægt fyrir samfélagið vegna þess að þetta eru svo dýrmæt fög fyrir okkur. Þótt það mál sem við erum að fjalla um hérna í dag sé undir formerkjum viðspyrnustyrkja þá er það mín skoðun að við eigum í framhaldinu að koma með enn myndarlegri hætti að styrkjum til þessara greina og við þurfum að gera það varanlega, ekki sem tímabundið úrræði. Samfélagið okkar er að sigla inn í mjög spennandi en kvika tíma þar sem er að verða gríðarleg breyting á samfélaginu. Það er gjarnan talað um það í þessum framtíðarfræðum að einn af lykilþáttum og lykileiginleikum sem við verðum að búa yfir og sem flest okkar verða að búa yfir, eigum við að ná að fóta okkur sæmilega í framtíðinni, er mikil skapandi hugsun. Þess vegna skiptir auðvitað listkennsla og listir og menning höfuðmáli. Þannig að ég fagna þessu en ég vona að strax í framhaldinu munum við horfa til þess að auka við styrki til menningar og lista og gera það varanlega.