152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

listamannalaun.

408. mál
[19:47]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim sem hér hafa tekið til máls. Ég vil kannski varpa eilitlu ljósi á það sem hv. þm. Jóhann Páll Jóhannsson var að velta fyrir sér. Áður en ég geri það er rétt að rifja upp að í lögum um listamannalaun kemur fram að endurskoða beri fjölda listamannalauna — þetta eru mánaðarlaun sem miðað er við — á fimm ára fresti. Ég tók þátt í þeirri vinnu sem átti sér stað árið 2009, fyrst í tíð Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, þáverandi menntamálaráðherra, og síðar í tíð menntamálaráðherra þess tíma, Katrínar Jakobsdóttur. Magnús Ragnarsson leiddi þá vinnu, síðar aðstoðarmaður Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra 2013–2017. Árið 2009 höfðu þessi lög, um fjölda mánaða, ekki verið endurskoðuð síðan 1991. Það voru í raun 18 ár sem höfðu liðið í stað endurskoðunar á fimm ára fresti.

Ég ætla að árétta það sem listamenn þurfa stundum að sitja undir — ég tek fram að sjálfur hef ég aldrei sótt um listamannalaun en margir sem ég þekki hafa gert það og reitt sig á það sem starfsvettvang. Sá sem skrifar bók fær þá bók stundum færða yfir í leikrita- eða kvikmyndaform eða söngleik, og um er að ræða einhvers konar nýsköpunarfé þar sem eitt getur leitt af öðru. Ég hef sagt það áður, og ætla að endurtaka það fyrir þá sem hafa ekki heyrt það: Ísland hefur ekki orðið þekktara af neinu öðru en hugverkamönnum allt frá dögum Snorra og Laxness, af Björkum, Sigurrósum og Kaleoum og öllu því. Ef Ísland hefur staðið sig sérlega vel í einhverju er það í hugverkagerð í þeim andans truntuútgerðum sem hafa borið hróður okkar víða.

Í febrúar voru 450 milljónir settar til viðbótar í þennan málaflokk, sem einhvers konar aukaframlag vegna erfiðra tíma, og hefur verið tilkynnt um það. Það þýðir að tónhöfundar fá 150 milljónir til úthlutunar strax og þingið getur hleypt því máli til seinni umræðu og afgreiðslu. Þeir tónlistarmenn og sviðslistamenn sem fengu vilyrði um 450 milljóna framlag eftir tveggja ára atvinnubann hafa því beðið ansi lengi. Vegna taktsins í þinginu hefur ekki tekist að koma þessu til afgreiðslu en ráðherra hét því nú síðast í morgun að vonandi yrði það strax að afloknu því tveggja vikna hléi sem fram undan er. Ég veit að það hafa verið gríðarlega erfiðir tímar hjá fólki í tónlist og sviðslistum, sem ekki hefur mátt vinna, og fyrst núna er starfsvettvangur þeirra aðeins að hjarna við.

Ef við reiknum þessa ánægjulegu tölu — 13 árum eftir að laununum var fjölgað úr 1.200 í 1.600 — þá er þetta komið upp í 1.800 mánaðarlaun. Það þýðir að það eru þá 150 listamenn úr öllum geirum, og hönnuðir þar með taldir, sem geta starfað við það að vera listamenn og hljóta til þess styrki frá ríkinu. Ég er sannfærður um að þessir 150 einstaklingar eru verðugir daglauna sinna og mánaðarlauna og svo eru allar hinar þúsundirnar af íslenskum listamönnum sem hafa ekki að neinu slíku að hverfa, hafa ekkert fast land undir fótum eða öryggi. Flestir tónlistarmenn eru háðir því að fara hreinlega á þjóðveginn og vera fjarri heimili og fjölskyldum. Þeir fara og sækja sinn afla, sækja sinn kvóta. En það ber að fagna því að þetta skuli þó nú, öllum þessum árum síðar, tímabundið vera komið úr 1.600 í 1.800. Nú hafa sem sagt 150 Íslendingar þessi laun og síðan koma 150 milljónir til viðbótar til höfundanna og sennilega 150 milljónir til viðbótar til flytjenda sem dreifast eftir kúnstarinnar reglum.

Ég ætla ekkert að fjölyrða um þetta. Ég vildi bara aðeins að þeir sem eru að hlusta og fylgjast með þessu átti sig á því hvað það eru í raun fáir sem þessa njóta. 150 manns eru á árslaunum við að stunda sína list. Rithöfundar eru með 555 mánuði og þá er eftir til skiptanna fyrir alla hina listamennina það sem út af stendur. En þetta eru góðar fréttir í sjálfu sér. Ég vona að þessi fimm ára endurskoðunartími verði, í ljósi allra tafa á endurskoðun og fjölgun þessara launa, endurskoðaður sem allra fyrst og 1.800 mega gjarnan verða 2.000, það mætti að ósekju fjölga eilítið í þessum 150 manna hópi. En ég er þakklátur fyrir að ekki skuli stefna í neitt málþóf út af þessu frumvarpi eða þessum breytingum til hins betra. Ég þakka nefndinni sem hefur staðið að þessu og orðið einhuga um að þetta skuli ná fram að ganga. Ég vona að þingheimur muni ekki tefja framgöngu málsins og afgreiðslu þess.