152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

listamannalaun.

408. mál
[19:55]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Ég kem hér upp til að fagna því að þetta mál sé að verða að veruleika. Mér finnst eðlilegt að við stöndum með þessum hópi einstaklinga sem urðu verst úti í þessum faraldri sem yfir okkur hefur dunið, ekki bara í stuttan tíma heldur í mörg ár. Þetta er hópur sem var sviptur atvinnu sinni og hefur ekki mátt afla sér viðurværis á þann hátt sem hann hafði gert þar á undan þannig að það er bara mjög jákvætt. Þetta er auðvitað flokkað með þeim viðspyrnustyrkjum sem gripið hefur verið til og hafa verið til staðar alveg frá því að faraldurinn hófst, sýknt og heilagt hefur verið unnið að viðspyrnustyrkjum til að standa með þeim hópum sem harðast urðu úti í þessum faraldri. Það er bara ánægjulegt að sjá að þessir fjármunir, sem auðvitað er hægt að hafa skoðanir á hvort séu nægjanlegir eða ekki, séu núna að renna til, ef þingið samþykkir þetta, hópa sem þurfa á þessu að halda. Hér er búið að fara ágætlega yfir það hvernig það gengur fyrir sig; þetta fer í gegnum launasjóði, fer til tónhöfunda, fer í tónlistarsjóð, fer í útflutningssjóð tónlistar, hljóðritasjóð, ÚTÓN, það er verið að standa með nýsköpun og útflutningi, það verið að setja fjármuni í Tónverkamiðstöð. Allt skiptir þetta máli. Síðan er verið að horfa til sviðslistanna og setja fjármuni í sviðslistasjóð. Þetta er bjargráð fyrir þá sem þessa úrræðis munu njóta.

Mig langar aðeins að nefna umsögn sem kom frá Bandalagi íslenskra listamanna 5. apríl þar sem þessu úrræði er fagnað. En þar er jafnframt bent á að þetta sé búið að vera til umræðu frá því í haust og þegar þetta getur orðið að veruleika þá verður kominn maí. Þá á væntanlega eftir að koma þessum fjármunum á rétta staði og síðan úthluta þeim. Þannig að það er allt útlit fyrir að þetta úrræði taki heilt ár að verða að veruleika, þ.e. frá því að það var til umræðu síðastliðið haust þar til að það verður að veruleika. Manni finnst það sérstakt að ekki skuli vera hægt að bregðast hraðar við við vanda sem fyrir lá, að við séum með hóp sem hafi þurft að bíða eftir því að úrræðið næði fram að ganga og tæki gildi í heilt ár. Mér finnst það allt of langur tími. Ég þekki sjálfur prívat og persónulega einstaklinga sem nánast hafa orðið gjaldþrota við þessar aðstæður af því að þeir féllu milli skips og bryggju og höfðu ekki það viðurværi sem þeir höfðu haft, ekki af því að þeir nenntu ekki að vinna heldur af því að vinnan var bara tekin frá þeim. Auðvitað berum við sem samfélag ábyrgð á því að standa með slíkum hópum þegar þeir eru í þessari stöðu sem þeir réðu engan veginn við.

Við erum auðvitað kát með að þetta sé að verða að veruleika og ég vil líka fagna því, og gerði það líka þegar farið var yfir þetta við 1. umr., að þarna sé verið að eyrnamerkja ákveðinn hluta styrkja til ungs fólks. Vonandi verður þetta til framtíðar, að við förum að afmarka þetta eða tengja þetta t.d. ungu fólki. Það er oft sagt við ungt fólk: Viltu ekki bara koma og gera þetta frítt af því að þetta er svo mikil auglýsing í þessu? Þannig er oft staða ungs fólks á þessum markaði lista, það er verið að nýta sér þjónusta þess án endurgjalds. En hér er verið að koma til móts við alla vega hluta af þessum hópi sem fær þá eyrnamerkta styrki sem munu renna til þeirra beint.

Ég hef líka talað um það að þrátt fyrir að við séum með þessu úrræði að standa með og styðja við tiltekinn hóp þá erum við ekki komin alla leið. Það er búið að vera að vinna að vinnumarkaðsúrræðum, eftir að ég kom inn á þing, frá áramótum. Í síðustu fjárlögum voru þessi úrræði í raun og veru lögð niður en það er verið að endurvekja þau eitt af öðru. Það lá fyrir að Covid var ekkert búið þannig að staðan var bara grafalvarleg og hefur verið það þrátt fyrir að nú sé sólin farin að skína og fólk geti farið að sinna sínu. En það eru bara margir svo laskaðir eftir þetta tímabil að þeir geta varla staðið í lappirnar. Mér hefur fundist þetta ganga seint og illa og mér hefur líka fundist eins og við næðum ekki utan um alla hópa. Það er mikið af fólki sem tengist listum þótt það sé ekki skilgreint sem eiginlegir listamenn. Margir hafa orðið illa úti og ekki fengið aðgang að þeim úrræðum sem verið er að beita og við höfum verið að standa fyrir. Við þurfum að vera með opin eyrun og við þurfum að hlusta og við þurfum að fylgjast með þeim aðilum sem ekki hafa fengið úrlausn og reyna að koma til móts við þá með einhverjum hætti.

En að öðru leyti er ég bara ánægður með að þetta sé að verða að veruleika, eitt af mörgum úrræðum sem þessir hópar þurftu svo sannarlega á að halda. Vonandi, eins og þeir hafa sagt sem á undan mér hafa talað, verður þetta varanlegt en ekki bráðabirgðaúrræði og vonandi getum við bara að halda áfram að bæta í. Heimur án listar er fátækur heimur og það er bara í eðli okkar að búa til og skapa, hvort sem það er myndlist, söngur, dans eða hvaðeina. Við þurfum á þessu að halda, listin nærir okkur og við værum eins og visið tré ef listarinnar nyti ekki við.