152. löggjafarþing — 72. fundur,  29. apr. 2022.

ummæli innviðaráðherra á búnaðarþingi.

[10:57]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Hér vísar hv. þingmaður til atviks sem ég hef lýst sem óheppilegu, sem ég hef sjálfur, bæði opinberlega og gagnvart viðkomandi, beðist afsökunar á, afsökunarbeiðnin móttekin og aðilar verið sammála um að tala ekki um meir. Ég mun virða það. Það er hins vegar þungbært og þungbærara en ég bjóst við, eftir að hafa verið svona lengi í stjórnmálum, að upplifa það dag eftir dag hér í þinginu í tiltekinn tíma af tilteknum stjórnmálamönnum og af einstökum fjölmiðlum að vera borinn þungum sökum um eitthvað allt annað. Ég hef velt því fyrir mér hvort það sé eitthvað í mínu fari persónulega eða eitthvað sem stjórnmálamaðurinn Sigurður Ingi hefur staðið fyrir sem bendir til að þetta sé svona. Eða er það bara vegna þess að það eru sveitarstjórnarkosningar eftir hálfan mánuð [Háreysti í þingsal.] — bara sveitarstjórnarkosningar (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) eftir hálfan mánuð og Framsóknarflokkurinn er farinn að taka fylgi af öðrum flokkum? (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Er það virkilega svo? (Gripið fram í: Það er eins og Sjálfstæðisflokkurinn.) (Forseti hringir.) Ég á ekki auðvelt með að grínast með þetta mál. Það hefur tekið þungt á mig, mína fjölskyldu og mína vini. Ég hef beðist afsökunar. Sú afsökunarbeiðni hefur verið meðtekin. Við vorum sammála um að ræða það ekki frekar og ég mun virða þá ósk. (Gripið fram í: Svaraðu spurningunni.)

(Forseti (BÁ): Forseti beinir því til þingmanna að gefa ræðumönnum tækifæri til þess að ljúka máli sínu án frammíkalla.)