152. löggjafarþing — 72. fundur,  29. apr. 2022.

Garðyrkjuskólinn á Reykjum.

[11:02]
Horfa

Erna Bjarnadóttir (M):

Herra forseti. Róm brennur. Þannig tel ég að lýsa megi ástandinu í Garðyrkjuskólanum að Reykjum í Ölfusi. Innviðir garðyrkjunáms á Íslandi brenna.

Forseti. Ég tel að það ríki neyðarástand í málefnum starfsnáms í garðyrkju. Gleymum því ekki að hér er um löggilda iðngrein að ræða. Starfsmönnum skólans hefur borist bréf: Þér tilkynnist hér með að ákveðið hefur verið að segja þér upp störfum. Uppsögnin tekur gildi frá og með 1. maí 2022. Samningsbundinn uppsagnarfrestur þinn er þrír mánuðir og mun samkvæmt því ljúka þann 31.7. 2022. Hvernig ætlar ríkisstjórnin — og ég veit að hæstv. innviðaráðherra er áhugamaður um landbúnað og garðyrkja er sérstaklega nefnd í ríkisstjórnarsamstarfinu — að tryggja samfellu í þessu námi? Er hér bara verið að kasta fyrir róða þekkingu, áratugaþekkingu, eins og hv. þm. Guðrún Hafsteinsdóttir kom inn á í störfum þingsins? Hvað með alla þá nemendur, yfir 100 nemendur, sem hafa skráð sig til náms í haust? Hver á að kenna þessu fólki? Hvaða þekking verður þar í boði?

Forseti. Þetta krúnudjásn okkar í landbúnaði, garðyrkjan, er með þessu fótum troðin að mínu mati, með þeirri óvissu og mér liggur við að segja vanvirðingu sem starfsemi skólans, starfsmönnum og nemendum er sýnd með þessu framferði. Rímar þessi framganga við stjórnarsáttmálann um garðyrkju, aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og skuldbindingar Íslands á þeim vettvangi, landbúnaðarstefnuna, Ræktum Ísland, stefnuskjal sem unnið var á síðasta kjörtímabili og kynnt með talsverðri fyrirferð og ég tek fram að er hið merkasta og besta plagg, hugleiðingar um fæðuöryggi þjóðarinnar?

Forseti. Ég tel að þingið þurfi að fá svör við spurningum sem þessum.