152. löggjafarþing — 73. fundur,  29. apr. 2022.

atvinnuréttindi útlendinga.

482. mál
[12:17]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Ég styð þessa breytingu enda styð ég allar breytingar sem lúta að því að gera fólki sem á annað borð hefur heimild til að dveljast hér á landi heimilt að sjá sér farborða. Sjálf myndi ég auðvitað vilja ganga mun lengra og einfaldlega hafa það þannig að ef þú mátt vera hér á landi þá máttu sækja þér atvinnu, en það er önnur umræða sem við getum tekið síðar. Glöggir hafa eflaust veitt því athygli að ég hef lagt fram breytingartillögu við þetta frumvarp hæstv. ráðherra og hún er þess efnis að við frumvarpið verði bætt ákvæði um að fólk sem fær dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða eða vegna sérstakra tengsla við landið verði sömuleiðis undanþegið kröfu um atvinnuleyfi. Ástæðan er sú að jafnvel þó að það að fólk geti sótt um atvinnuleyfi teljist uppfylla kröfur um að fólk hafi aðgengi að vinnumarkaði þá felur það í sér gríðarlega mikla og þunga hindrun í reynd, í framkvæmd, fyrir fólk, bæði til að finna vinnu og fá heimild til að stunda hana. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé reiðubúinn að styðja breytingartillögu mína. Við byrjum kannski á því.