152. löggjafarþing — 73. fundur,  29. apr. 2022.

atvinnuréttindi útlendinga.

482. mál
[12:20]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og það gleður mig að við séum sammála um þetta atriði þótt ég hafi svo sem vitað það fyrir, enda er þessi breyting brýn, ekki síst núna þegar ríkisstjórnin hefur ákveðið að veita flóttafólki frá Úkraínu ekki þá stöðu sem því ber, þ.e. stöðu flóttamanna með fullum dvalar- og atvinnuréttindum hér á landi, heldur er þeim veitt tímabundið dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Það hljómar ákaflega vel en þetta er nú bara dvalarleyfi til eins árs og takmarkaðir möguleikar á endurnýjun þess og því fylgir ekki atvinnuleyfi. Það er því mjög brýnt að koma þessari breytingu í gegn, þannig að þau geti hafið vinnu af því að þarna er náttúrlega um einhvern fjölda fólks að ræða sem í langflestum tilvikum vill gjarnan geta farið að byggja sér upp sjálfstætt líf hið allra fyrsta. Ég velti því fyrir mér þessari breytingu sem hæstv. dómsmálaráðherra hefur lagt fram — hann hefur ekki áður gert það en fleiri dómsmálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa áður lagt fram tillögu um þessa breytingu á lögum, tillögu um að veita fólki með dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða undanþágu frá kröfu um atvinnuleyfi — sú breyting hefur alltaf verið inni í stærri pakka sem er augljóslega ástæðan fyrir því að hún hefur ekki enn farið í gegn því að ég held að enginn deili um ágæti þess að leyfa fólki að vinna ef það fær á annað borð að vera hérna. Mig langar til þess að spyrja hæstv. ráðherra í því samhengi hvort hann styðji stærra frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra sem liggur fyrir þinginu þar sem þessu góða máli hefur til nokkurra ára verið blandað saman við margt sem ég myndi telja mjög slæmt.