152. löggjafarþing — 73. fundur,  29. apr. 2022.

atvinnuréttindi útlendinga.

482. mál
[12:27]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið. Ég er svolítið ánægður með þessa spurningu og þessa nálgun hv. þingmanns en ég ætla að fá að taka þetta aðeins lengra. Hv. þingmaður talar um stéttapólitík. Þetta er í sjálfu sér ekki stórt eða umfangsmikið frumvarp. Það er til að bregðast við Brexit og lýtur vissulega að fólki sem hefur það væntanlega betra en þau sem leita ásjár á Íslandi vegna hörmunga í eigin landi. Við erum að sjálfsögðu alveg með það á hreinu. En mig langar að taka þessa umræðu örlítið lengra á þeim stutta tíma sem ég hef. Ég hef áhyggjur af því að hér á Íslandi séu í raun að verða til tveir hópar — ég veit ekki hvort maður á að nota svo stórt orð að segja tvær þjóðir — þegar kemur að aðgangi fólks, annars vegar fólks sem er af erlendu bergi brotið og hins vegar fólks sem hefur alið allan sinn aldur hér og er af íslensku bergi brotið, þ.e. að láglaunastörf störf séu það sem bíði þeirra sem eru af erlendu bergi brotnir frekar en hinna. Það er eitthvað sem við höfum hingað til ekki haft neina stefnu um, þ.e. hvert við viljum stefna í þeim málum. Þess vegna er það í stjórnarsáttmála, og það er eitt af þeim verkefnum sem ég mun vinna að á kjörtímabilinu, að við setjum okkur stefnu í málefnum innflytjenda þar sem við þurfum að takast á við þessar grundvallarspurningar. Þess vegna fagna ég því að hv. þingmaður ræði þetta hérna og ég vonast til þess að við getum átt dýpri umræðu um akkúrat þetta atriði einhvern tímann á þessu kjörtímabili.