152. löggjafarþing — 73. fundur,  29. apr. 2022.

atvinnuréttindi útlendinga.

482. mál
[12:31]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni umræðuna um þetta mál. Mig langar aðeins að bæta við frá því áðan að um er að ræða afskaplega lítinn hóp, eins og fram kemur í frumvarpinu, sem frumvarpið tekur til. Þetta eru örfáir einstaklingar sem hingað til hafa nýtt sér þessa gerð atvinnuleyfis sem vissulega er í 9. gr. laganna en yrði í 8. gr. ef umræddar breytingar ná fram að ganga. Hv. þingmaður spyr hvort það að leiða ákveðinn flokk til valda, sem hafi ákveðnar skoðanir, sé til þess fallið að breikka þetta bil. Ég horfi til stjórnarsáttmálans og þeirra verkefna sem eru í honum, til þeirra atriða sem þar koma fram og þeirra þátta sem eru á verksviði félags- og vinnumarkaðsráðherra og dómsmálaráðherra. Það þarf auðvitað að vera ákveðið samstarf þar á milli. Ég mun beita mér fyrir því að við reynum að nálgast þessi mál af eins mikilli mannúð og mögulegt er því að það er stefna míns flokks og það er sú skoðun sem ég lifi og starfa eftir.

Mig langar aðeins í þessu samhengi að koma inn á nokkur atriði sem þessi ríkisstjórn hefur gert síðan hún tók við í lok nóvember og varða flóttafólk. Við höfum beitt okkur fyrir því, og ég hef haft forystu um það sem félags- og vinnumarkaðsráðherra, að taka hér á móti viðkvæmum hópum. Við byrjuðum á því í janúar að lýsa því yfir að við myndum taka á móti konum sem væru í erfiðri stöðu í Afganistan. Við höfum einnig lýst því yfir og tekið þá ákvörðun að við munum sérstaklega aðstoða viðkvæma hópa sem eru á meðal flóttafólks frá Úkraínu og eru í nágrannaríkjum þess ríkis.