152. löggjafarþing — 73. fundur,  29. apr. 2022.

atvinnuréttindi útlendinga.

482. mál
[12:33]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Mig langar að þakka hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra, Guðmundi Inga Guðbrandssyni, fyrir að leggja fram þetta frumvarp sem ég styð efnislega heils hugar. Mig langar samt að byrja á að benda á, eins og hæstv. ráðherra sagði hér í andsvari rétt áðan, að fjöldinn er mjög lítill sem þetta ákveðna frumvarp nær yfir. Þegar þessi möguleiki var upphaflega kynntur af fyrri ríkisstjórn þá var það nú þannig að þetta átti að laða marga sérfræðinga til landsins. En eitt aðalvandamálið sem hefur komið upp hefur einmitt verið tengt því að flækjustigið við það að sækja um atvinnu- og dvalarleyfi undir þessum lögum hefur verið of mikið og það hefur tekið allt, allt of langan tíma að afgreiða umsóknir um atvinnuleyfi. Það eru mýmörg dæmi um að það taki allt að sex mánuði að samþykkja atvinnuleyfi og dvalarleyfi á grundvelli þessara reglna. Það er eitthvað sem ég hvet hæstv. ráðherra að vinna í ötullega því að bara það að þetta hefur frést út meðal fólks sem sækir um svona hefur leitt til þess að fjölmargir sérfræðingar og aðrir hafa hætt við að koma til landsins.

Varðandi frumvarpið og þær breytingar sem verið er að gera hér þá er gott að við getum notað Brexit sem afsökun til að gera breytingar en þetta eru líka breytingar sem bent hefur verið á að þurfi að gera. Það að flytja t.d. starfsfólk á milli starfsstöðva er mjög algengt, sérstaklega meðal stórfyrirtækja. Það er t.d. mjög ánægjulegt að sjá að stórfyrirtæki á borð við Microsoft, Google og Facebook og fleiri hafa sett upp starfsstöðvar hér, upphaflega til þess að veita íslenskum starfsmönnum sem vildu búa á Íslandi möguleika á því að starfa áfram hjá fyrirtækinu en líka til þess að geta boðið erlendum starfsmönnum sem vilja búa hér, kannski af því að, eins og einn sagði, að hann var svo heppinn að kynnast íslenskri konu og vildi þar af leiðandi flytja til Íslands, að halda áfram vinnunni. En það er eitt að flytja til starfsstöðvar. Hitt sem ég hef gagnrýnt harðlega mjög lengi og ég hef reyndar gagnrýnt erlendis í þeim löndum sem ég hef búið, er það sem ég kalla 1950-hugsunina, sem er að maki sérfræðings skuli ekki fá atvinnuleyfi þó svo að sérfræðingurinn hafi fengið það. Ég kalla þetta 1950-hugsunina vegna þess að það virðist einfaldlega ætlast til þess að makinn sé heima að þrífa húsið og elda matinn og hafa allt tilbúið í stað þess að geta verið líka á vinnumarkaði. Þannig að ég fagna því að hér sé verið að taka á þeirri skelfilegu reglu.

Mig langar líka að fá hæstv. ráðherra til að hugsa aðeins um það að í þessum lögum er verið að opna á að atvinnurekendur geti flutt fólk á milli starfsstöðva. Ég hefði viljað gjarnan hafa þetta aðeins víðara og hugsa líka um hluti eins og félagasamtök og alþjóðlegar stofnanir, hvort þær gætu verið með starfsstöðvar hér og flutt fólk á milli á auðveldan máta.

Ég ræddi hér áðan um það hvað tekur langan tíma að fá afgreiðslu. Ég held að það sé líka kominn tími á það að skoða þær reglugerðir og þau skilyrði sem sett eru um sérfræðinga, meta hvernig þau hafi reynst og kannski fara í endurskoðun á þeim.

Að lokum langar mig að styðja þá breytingartillögu sem lögð hefur verið þegar fram við þetta frumvarp. Hæstv. ráðherra hefur sagt að hann vilji taka vel á móti fólki á flótta og fólki sem kemur hingað og fær dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Það er kjörið tækifæri að nýta jafn stutt og fallegt frumvarp eins og þetta er til þess að taka strax á því að gefa fólki sem hefur fengið dvalarleyfi af mannúðarástæðum möguleika á því að sjá sér farborða, möguleika á því að sækja um vinnu án þess að vinnuveitandinn þurfi að fara í gegnum flókið ferli. Þetta eru allt saman hlutir sem ég tel að við getum öll verið sammála um og því væri góður bragur, eins og sagt er hér á Alþingi, á því að koma því bara sem fyrst í gegn þannig að það virki líka sem fyrst, m.a. fyrir þann stóra hóp sem hingað er að koma frá Úkraínu.