152. löggjafarþing — 73. fundur,  29. apr. 2022.

atvinnuréttindi útlendinga.

482. mál
[12:42]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið og áhugaverðar tölur sem væri gaman að skoða vegna þess að þær sögur sem ég hef heyrt um lengri afgreiðslutíma virðast aðallega tengjast fólki sem kemur langt að. Þá meina ég fólki sem kemur kannski frá Suður-Ameríku, Afríku, Asíu. Það væri athyglisvert að fá slíkar tölur brotnar niður eftir því hvaðan fólk kemur, hvort það hafi einhver áhrif. Kannski getur það skýrt þetta að einhverju leyti, það sé flækjustig varðandi tungumál og annað. Svo veit ég ekki hvort búið er að innleiða stafrænar umsóknir eða ekki í þessu en vonandi verður það sem fyrst. Ég vil benda á að þegar ég fór að vinna í Afríku fyrir þremur árum síðan, í því landi þar sem ég sótti um, þá tók þetta þrjá daga og þeir eru ekki þekktir fyrir annað en mikla skriffinnsku og ýmislegt annað, þannig að við getum kannski lært eitthvað af því. En það er gott að við séum að mæla þetta. Það er gott að við séum að fylgjast með þessu vegna þess að við viljum fá fólk hingað til lands í þessi störf. Við viljum hafa starfsstöðvar alþjóðlegra fyrirtækja og stofnana hérna vegna þess að það mun einfaldlega leiða til þess að í okkar eigin samfélagi, og ég tala nú ekki um eins og í nýsköpunarsamfélaginu, verða til möguleikar á þekkingu, upplýsingum og tengslum sem koma hingað inn, sem munu bæta okkar eigið vinnumarkaðssamfélag.