152. löggjafarþing — 73. fundur,  29. apr. 2022.

atvinnuréttindi útlendinga.

482. mál
[12:46]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir góð og uppbyggileg svör. Mig langaði bara að taka dæmi úr eigin reynslubanka fyrir rúmum 30 árum síðan. Þá var ég ungur sjálfboðaliði í ungmennahreyfingu Rauða kross Íslands og á þeim tíma fékk Rauði kross Íslands, til þess að hjálpa við að byggja upp þá ungmennahreyfingu, starfsmann í eitt ár frá sænska Rauða krossinum. Hann var hér og var í rauninni okkar tengiliður inn í Rauða krossinn við það að byggja upp okkar starf. Þarna varð til mikið og gott og blómstrandi starf og upp úr þessu komu ýmsir hlutir eins og Vinalínan, eins og við kölluðum hana, og margt annað. Mín hugsun er sú að þarna eru tækifæri fyrir t.d. félagasamtök, ekki bara til að fá þekkingu erlendis frá heldur líka jafnvel að það komi aðilar frá félagasamtökum annars staðar til Íslands til að læra af því hvernig hlutirnir eru gerðir hér. Þeir geta það í dag með einhverju framhjáhlaupi, með því fá einhver ekki-atvinnuleyfi, en það er allt annað að koma hingað og fá að vinna hérna sem hluti af félagasamtökum í einhvern tíma og taka síðan þá þekkingu með sér út, svipað og við erum að gera með háskóla UNESCO, GRÓ. Þetta er það sem ég var að hugsa um í því sambandi og ég hvet nefndina til að skoða það líka.