152. löggjafarþing — 74. fundur,  16. maí 2022.

lengd þingfundar.

[15:49]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Fyrstu vikum mínum hér á þingi eyddi ég uppi í pontu að röfla yfir því að Útlendingastofnun neitaði að afhenda þinginu gögn sem þinginu ber til að afgreiða umsóknir um ríkisborgararétt. Þau gögn sem við fórum fram á í desember voru afhent að lokum eftir mikinn barning og allt of seint. Mig langar til þess að upplýsa forseta um það af miklum trega að þessi staða er komin upp aftur með nákvæmlega sama hætti. Nú öðru sinni á þessum þingvetri er Alþingi að fara að afgreiða umsóknir um ríkisborgararétt og Útlendingastofnun, í skjóli hæstv. dómsmálaráðherra, neitar að afhenda þinginu þau gögn sem stofnuninni ber samkvæmt lögum. Ég óska enn og aftur eftir liðsinni virðulegs forseta við að gæta að virðingu Alþingis og útskýra það fyrir framkvæmdarvaldinu að það er Alþingi sem stýrir sinni vinnu en ekki hæstv. dómsmálaráðherra og ekki Útlendingastofnun. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)