152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[19:17]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið sem var við einhverri annarri spurningu en þeirri sem ég spurði. Ég var að spyrja hæstv. ráðherra út í bráðabirgðaratvinnuleyfi sem er veitt þeim sem eru að bíða eftir niðurstöðu mála, eins og kom fram í máli mínu. Þeir sem eru komnir hingað og sækja hér um vernd, geta fengið vinnu strax, koma með pappírinn um að þeir hafi fengið vinnu — getur ráðherra tryggt að viðkomandi geti þá fengið gefið út bráðabirgðaratvinnuleyfi án þess að þurfa að bíða eftir því svari í sex til átta mánuði eins og nú er? Áður fyrr var þetta afgreitt á tveimur, þremur vikum og þeir sem voru með tilboð um vinnu gátu farið að vinna og duttu þar af leiðandi út af framfærslu ríkisins af því að þeir voru komnir með vinnu. Getur hæstv. ráðherra tryggt að það verði einhver skilvirkni í þessu svo við getum bæði létt þeim lífið sem hingað eru komin og bíða og til að við getum auðveldað rekstraraðilum rekstur fyrirtækja sinna (Forseti hringir.) af því að það vantar hér vinnandi hendur?