152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[19:18]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Einu sinni var öldin önnur, það er alveg rétt hjá hv. þingmanni. Hér voru aðstæður, eins og ég fór yfir í framsöguræðu minni, allt aðrar fyrir nokkru síðan. Ekki á svo mörgum árum hefur ástandið gjörbreyst og við erum auðvitað með miklu lengri málsmeðferðartíma í öllum þessum málaflokki. Það skýrist eflaust af þeirri ástæðu hversu hægt það gengur að veita bráðabirgðaratvinnuleyfi með sama hætti og málsmeðferðartíminn almennt hefur lengst mjög mikið eða frá því að hafa tífaldast á síðustu sjö árum. Ég held að ég geti fullyrt við hv. þingmann að þessi tími mun styttast verulega. Mér finnst alveg koma til skoðunar að allsherjar- og menntamálanefnd skoði þetta alveg sérstaklega vegna þess að vissulega er ég í þeim hópi manna sem vilja greiða fyrir þessu fólki svo það geti farið út á vinnumarkaðinn. En fyrst og fremst vil ég að sá mikli biðtími sem hefur verið, (Forseti hringir.) sá langi afgreiðslufrestur sem hefur verið á öllum umsóknum, styttist og það mun breytast verulega verði þetta frumvarp að lögum.