152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[19:22]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir svarið. Þó að hann hafi ekki svarað spurningunni beint þá skil ég það sem svo að þessu ákvæði sé hugsanlega ekki ætlað að auka skilvirkni. Ég er sammála því. Ég tel það muni gera þvert á móti.

Hæstv. ráðherra nefnir hér að þessum breytingum sé ætlað að tryggja þeim sem raunverulega þurfa þess þá vernd sem þau þurfa á að halda. Þá langar mig að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra: Tökum dæmi um ungt par sem er með nýfætt barn, er án húsnæðis, án aðgengis að heilbrigðisþjónustu, án aðgengis að húsaskjóli eða nokkurs konar skjóli, það býr á brotajárnshaug, fær mat í kirkjunni einu sinni á dag ef það er heppið, þetta er fólk sem hefur engan aðgang að vinnumarkaði, enga von, það er ekkert sem gefur til kynna eða gefur því von um að þetta ástand muni nokkurn tímann breytast. Telur hæstv. dómsmálaráðherra þetta fólk ekki vera í raunverulegri neyð?