152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[19:27]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Forseti. Ég ætlaði hæstv. ráðherra vitaskuld ekki eina mínútu til að endurflytja framsöguræðuna heldur bað ég hann um að draga fram hverjar væru þýðingarmestu breytingarnar í hans huga. En ég þóttist skilja hann sem svo að það væri þá ekki síst sanngirnissjónarmið sem hann hefði í huga í þeim efnum. Þá langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra út í það hversu líklegt hann telur að þetta frumvarp verði að lögum, og þar er ég að vísa í þá sögu að frumvörp af þessum toga hafa verið lögð fram í þrígang og ekki náð fram að ganga. Eftir því sem við lesum í fjölmiðlum hefur þingflokkur Vinstri grænna gert svokallaðan almennan fyrirvara við málið. Býst hæstv. ráðherra við stuðningi þingflokks Vinstri grænna, sem hlýtur jú að vera forsenda þess að þetta frumvarp geti orðið að lögum?