152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[19:29]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Með þessu frumvarpi er hæstv. dómsmálaráðherra m.a. að leggja til breytingu á 33. gr. útlendingalaga sem felur í sér niðurfellingu þjónustu til þeirra sem fengið hafa synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd. Nú er það svo að þjónustan við umsækjendur um alþjóðlega vernd heyrir ekki lengur undir málefnasvið dómsmálaráðherra heldur hefur það færst yfir til hæstv. félagsmálaráðherra, Guðmundar Inga Guðbrandssonar. Það er alveg skýrt samkvæmt forsetaúrskurði að félagsmálaráðherra ber ábyrgð á málefnum er varða þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd, skv. 27. og 33. gr. laga um útlendinga, og setningu reglugerðar samkvæmt þeim ákvæðum. Því vil ég fá að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra: Hvers vegna er það hann en ekki hæstv. félagsmálaráðherra sem leggur til breytingar í þessa veru? Ég spyr sérstaklega um það vegna þess að um leið er félagsmálaráðherra að leggja til ákveðnar breytingar á útlendingalögum. Slík frumvörp frá félagsmálaráðherra liggja fyrir Alþingi. Ég vil svo fá að spyrja hvort þessar breytingar á 33. gr. séu lagðar til í samráði við hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra.