152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[19:33]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef í sjálfu sér ekkert nánara svar fyrir hv. þingmann en það sem ég fór yfir hér áðan. Þessi lögmæta þjónusta, sem allir sem sækja hér um vernd eiga rétt á að fá, byggist annars vegar á félagslegri þjónustu, sem gengur út á húsnæði og framfærslu og aðgang að heilbrigðisþjónustu, og síðan er það talsmannaþjónustan sem dómsmálaráðuneytið er þá ábyrgt fyrir í dag, en þar fylgir löglærður fulltrúi skjólstæðingi sínum í gegnum alla málsmeðferðina. Þegar málið hefur farið þar í gegn á eðlilegum forsendum og fengið sína afgreiðslu, bæði hjá Útlendingastofnun og hjá úrskurðarnefnd útlendingamála, og um synjun er að ræða, á viðkomandi að hverfa af landi brott innan 30 daga nema sérstakar ástæður séu til grundvallar því að framlengja þurfi þann tíma.

Við erum að fjalla hér um þessa þjónustu. Hún heyrir undir tvö ráðuneyti og það er verið að fella hana niður að þessum tíma loknum.