152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[19:36]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég tek heils hugar undir orð hv. þm. Jóhanns Páls Jóhannssonar því að umrædd lagagrein er á málefnasviði hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra. Sem dæmi um það er að síðar í kvöld verður rætt hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga þar sem er einmitt verið að fjalla um flutning þjónustu milli ráðuneyta. Þar kemur alveg skýrt fram að tilgangur þess frumvarps sem rætt verður hér síðar í dag er að laga útlendingalögin að því að hluti af útlendingalögunum, m.a. 33. gr., heyrir undir hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra. Ég held því að við hljótum að gera þá kröfu að hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra komi hingað í salinn og hlusti á þá umræðu sem heyrir undir hann og hans málefnasvið. Annað er ótækt, frú forseti, og tek ég undir að forseti hlutist til um að hæstv. ráðherra komi hingað.