152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[19:39]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég tel mjög mikilvægt að hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra komi hingað inn og skýri sína sýn á þennan málaflokk vegna þess að mig rekur minni til þess að þegar hann var spurður út í akkúrat þetta frumvarp og liði úr því, af hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur í óundirbúnum fyrirspurnatíma fyrir ekki svo löngu, hafi hann ekki einu sinni séð frumvarpið, hann hafi ekki einu sinni lesið það, hann hafi ekki einu sinni verið látinn vita af breytingum sem gera átti á málaflokki sem hann ber ábyrgð á. Ég velti fyrir mér hvort hæstv. ráðherra hafi lesið frumvarpið síðan þá.

Það kann síðan að vera að það sem kom fram í máli hæstv. dómsmálaráðherra — mér finnst það áhugaverð athugasemd að málaflokkurinn færist yfir um leið og búið er að hafna umsækjendum um alþjóðlega vernd á stjórnsýslustigi en eins og lögin eru núna, virðulegur forseti, er það ekki svo. Þessi löggjöf er kannski að reyna að breyta því en það breytir því ekki að núna er fólk sem er búið að fá endanlega höfnun á stjórnsýslustigi enn þá umsækjendur um alþjóðlega vernd. 1. gr. þessa frumvarps er að (Forseti hringir.) reyna að fá því breytt. Þangað til er þetta áfram á borði félags- og vinnumarkaðsráðherra.