152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[19:48]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Eins og ég nefndi áðan sagði hæstv. félagsmálaráðherra að hann hlakkaði til að sjá þetta mál koma fyrir þingið á svipuðum tíma og hæstv. dómsmálaráðherra notaði stöðuna í Úkraínu sem bensín á þann mótor að keyra þetta mál áfram inn til þingsins. Það var ógeðslegur tími þar sem átti að nýta neyð fólks í Úkraínu til að auka á neyð fólks á flótta. En nú er þetta mál komið hingað og við höfum ekki enn þá fengið svör frá félagsmálaráðherra um hvað það er sem hann sér svona gott við þetta frumvarp. Fyrir utan stóru myndina mætti líka ræða við hæstv. ráðherra um stöðu fatlaðs fólks á flótta. Það eru nefnilega ákvæði í frumvarpinu eins og það liggur fyrir þar sem Útlendingastofnun getur verið með mildandi ákvarðanir gagnvart fólki með miklar stuðningsþarfir. Reyndin er bara sú (Forseti hringir.) að Útlendingastofnun trúir ekki fullyrðingum fólks á flótta um nauðsyn til stuðnings (Forseti hringir.) vegna fötlunar frekar en Útlendingastofnun trúir nokkru öðru sem fólk á flótta segir.