152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[19:50]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að ítreka kröfu um að hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra sem fer með málefni fólks á flótta, þegar kemur að þjónustu við fólk á flótta og atvinnuréttindum fólks á flótta, verði kallaður í salinn til að ræða þetta mál sem er verið að gera á breytingar sem heyra undir hann.

Virðulegur forseti. Hér er lagt fram frumvarp til breytinga á lögum um útlendinga sem þrívegis áður hefur verið reynt að koma í gegnum þingið án árangurs. Já, frú forseti, þetta er í fjórða sinn sem við ræðum efni þessa baneitraða frumvarps sem ætlað er að veikja réttarstöðu viðkvæmra hópa, fólks í leit að vernd undan ofsóknum, undan stríðsátökum, hungursneyð, náttúruhamförum og sárafátækt. Já, ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur telur það vera forgangsmál að takmarka réttindi þeirra sem neyðst hafa til að flýja heimili sín og óskað eftir vernd á nýjum stað. Bravó.

Það er ekki eins og ekkert hafi gerst í heiminum í millitíðinni, frá því að þessi óskapnaður var lagður fram síðast, og það er ótrúlegt að þingmenn sem gefa sig út fyrir að vera félagslega þenkjandi, sem gefa sig út fyrir að vera með mannúðarstefnu í sinni stefnuskrá skuli leyfa þessu að gerast enn einu sinni. Já, mér er misboðið. Í millitíðinni, frá því að þetta var lagt fram síðast, hefur brotist út stríð í Evrópu, í Úkraínu, sem hefur hrakið ótrúlegan fjölda fólks á öllum aldri á flótta og þið leyfið ykkur að láta þetta standa hér í dag. Við vitum ekkert hvernig þessu stríði mun vinda fram. Okkur er að birtast einhver mesti flóttamannavandi sem Evrópa hefur staðið frammi fyrir í nokkur ár, síðan við lok seinna stríðs, og hér leyfir fólk sér bara að tala eins og einhver fyrirvari sem gerður er á þingflokksfundum sé fullnægjandi.

Ekki veit ég af hverju dómsmálaráðherrum Sjálfstæðisflokksins hefur verið það slíkt hjartans mál að skerða réttindi flóttafólks að þau rembast hér í fjórða sinn, fjögur þing í röð, við að leggja fram þetta frumvarp sem ekki virðist vera hljómgrunnur fyrir hér í þinginu og ekki einu sinni hljómgrunnur fyrir í sjálfri ríkisstjórninni — nú eða hvað? Það stendur ekki á Sjálfstæðisflokknum að stöðva framfaramál sem Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill leggja fram. Við þurftum að draga Vinstrihreyfinguna – grænt framboð í land nokkrum sinnum á síðasta kjörtímabili með alls konar framfaramál, mannúðarmál, kvenfrelsismál, en þetta rennur í gegnum ríkisstjórnarflokkana. Ekki veit ég af hverju hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og varaformaður þess flokks umber að hæstv. dómsmálaráðherra sé ítrekað að leggja fram breytingar á lögum sem fela í sér niðurfellingu á þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd, málaflokk sem hæstv. vinnumarkaðsráðherrann ber ábyrgð á.

Ekki veit ég heldur af hverju mennta- og barnamálaráðherra Framsóknarflokksins telur það í lagi að hér sé í fjórða sinn lagt fram frumvarp sem skerðir réttindi barna á flótta. Eða hvað? Er hann kannski ekki ráðherra barna á flótta, bara íslenskra barna, íslenskra ófatlaðra barna? Er það? Er það þannig? Ætlum við að hafa þetta þannig, virðulegur forseti, að við ætlum að handvelja þau börn sem við veitum hér vernd? Hér er um að ræða börn sem eiga undir högg að sækja, börn sem hafa jafnvel kynnst hér öðrum börnum, börn sem hafa jafnvel fengið hér þjónustu, fengið að ganga í leikskóla og skóla, börn sem hafa eignast hér nýja vini, lært tungumálið og börn sem eru send á götuna í Grikklandi af því að við elskum að fara í frí til Grikklands og þess vegna höldum við að það sé öruggt land. Með þessu frumvarpi á að koma endanlega í veg fyrir að þessi börn fái tækifæri til að eiga hér öruggt heimili og viðeigandi uppeldisskilyrði. Og svarið? Jú, við getum ekki bjargað öllum.

Ekki veit ég heldur af hverju við erum að fjalla um skerðingar á réttindum fólks á flótta á þessum tíma, á sama tíma og fjöldi fólks á flótta í Evrópu hefur aldrei verið meiri, þegar fólki á flótta fjölgar dag frá degi og neyð fólks í næsta nágrenni við okkur eykst. Ég hvorki skil né vil hafa skilning á því hvers vegna ráðamenn í einu ríkasta landi í heimi telja það vera slíkt forgangsmál að veikja réttarstöðu fólks á flótta að þeir eru tilbúnir til að endurvinna í fjórða sinn mannfjandsamlegt frumvarp til breytinga á útlendingalögum sem einn samstarfsflokka þeirra hefur ítrekað sagst gera fyrirvara við á þingflokksfundum.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að við framkvæmd laga um útlendinga hafi komið í ljós að þörf sé á að lagfæra, endurskoða og breyta allmörgum ákvæðum þeirra um alþjóðlega vernd svo að framkvæmd og meðferð mála sem undir þau falla sé skýr og gagnsæ. Skýr og gagnsæ. Hvað þýðir þetta á mannamáli? Jú, þegar frumvarpið er lesið þá er ljóst að markmið þess er fyrst og fremst að fækka umsóknum, fæla fólk frá því að koma hingað, auðvelda stjórnvöldum að senda fólk úr landi, skerða réttindi barna, fella niður rétt þeirra til að fá dvalarleyfi eftir að hafa dvalið hér mánuðum og jafnvel árum saman. Markmið frumvarpsins er líka að koma í veg fyrir að fólk í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem hlotið hefur alþjóðlega vernd í öðru ríki fái umsókn sína svo mikið sem skoðaða á Íslandi, undanskilja umsækjendur um alþjóðlega vernd þeirri lágmarksvernd sem stjórnsýslulögin okkar tryggja. Umsóknin er ekki einu sinni opnuð, hún er ekki skoðuð. Stytta skal tímann sem umsækjendur hafa til að afla gagna og undirbúa mál sitt. Ég ítreka að hér er um að ræða fólk á flótta sem þarf loksins þegar það er komið á áfangastað — það þarf ofboðslegt átak til að komast alla leið hingað og þá þarf að byrja að afla gagna af því að margir hafa engin gögn með sér af því að þau eru jú á flótta og hafa ekki örugga internettengingu þar sem þau sofa á götunni einhvers staðar úti í heimi. Nei, við ætlum að skerða þann tíma sem þau hafa til að afla umræddra gagna.

Frumvarpið boðar líka meiri háttar stefnubreytingu þegar kemur að aðgengi fólks sem fengið hefur synjun á umsókn sinni að grunnþjónustu. Markmiðið er að gera það löglegt að svelta fólk til samstarfs, samstarfs um að snúa til baka í ómannúðlegar og vanvirðandi aðstæður, jafnvel með börnin sín. Hér er á ferðinni stórhættulegt ákvæði sem mun leiða til aukningar á svartri atvinnustarfsemi og jafnvel nauðungarvinnu og dvalar í hættulegu húsnæði sem ekki er ætlað til búsetu. Þetta, frú forseti, mun auka á neyð fólks og skapa jarðveg fyrir misneytingu, mansal og skipulagða glæpastarfsemi. Það er alveg fyrirséð, frú forseti. Það er öllum ljóst sem hafa einhvern tímann starfað í þessum málaflokki. Þannig er það, af því að þú gerir allt sem þú getur til að bjarga lífi þínu, jafnvel að láta misnota þig í þágu arðs einhvers annars.

Framkvæmd og meðferð mála sem falla undir lögin er hvorki óskýr né ógagnsæ og hún verður sannarlega ekki skýrari eða gagnsærri með þeim breytingum sem hér er mælt fyrir. Þetta eru bara tískuorð, frú forseti, sem nú er slengt fram til að slá ryki í augu fólks. Þetta hefur með öðrum orðum enga merkingu. Í mörg ár hefur mikilvægi þess að meta og skoða mál út frá einstaklingsbundnum aðstæðum umsækjenda verið ítrekað. Það hefur þótt mikilvægt að öll mál fái einstaklingsbundið mat. Þetta er lögbundið og við erum skuldbundin að gera þetta svona samkvæmt alþjóðlegum samningum sem við erum aðilar að; að skoða hvert mál. Það hefur þótt mikilvægt að öll mál fái þetta mat út frá aðstæðum einstaklingsins. En hér á Íslandi, undir stjórn ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, virðist hafa orðið viðsnúningur. Nú á framkvæmdin bara að vera skýr og gagnsæ, skýr að því leyti að fólk sem hefur fengið alþjóðlega vernd í öðru ríki á ekkert erindi hingað og umsóknum þess verður tafarlaust hafnað, öfugt við þá óskýru framkvæmd sem nú er kveðið á um í lögum að umsóknir skuli skoðaðar á einstaklingsgrundvelli og málin metin út frá því hversu viðkvæm staða einstaklinganna er. Allra viðkvæmustu einstaklingarnir fá málin sín ekkert metin af því að þau eru ekki skoðuð. Þetta hafa verið örfá mál á hverju ári en núna verða þau bara ekkert skoðuð. Stjórnvöld telja sig með þessu getað stytt málsmeðferð sem virðist vera æðsta markmið dómsmálaráðherra; stytting málsmeðferðartímans. Þetta hefur verið einhvers konar leiðarstef Sjálfstæðisflokksins í stefnu hans í málefnum útlendinga; meiri skilvirkni í að reka fólk úr landi en ekki meiri skilvirkni í að veita fólki nauðsynlega vernd. Þá má fólk á öllum aldri, börn og eldra fólk, bíða misserum og árum saman á meðan við vinnum í því að gera kerfið skilvirkara svo hægt sé að henda því fyrr úr landi.

Frú forseti. Með því að samþykkja þetta frumvarp er ljóst að sú sátt í útlendingamálum sem leitast var við að skapa við vinnslu núgildandi útlendingalaga glatast algerlega verði þessi óskapnaður samþykktur af stjórnarliðum hér í þinginu. Rétt er að rifja upp að frumvarp til núgildandi útlendingalaga var samið á vegum innanríkisráðuneytisins og þverpólitískrar þingmannanefndar um málefni útlendinga og fól sú vinna í sér heildarendurskoðun á eldri lögum um útlendinga. En það er engin þverpólitísk þingmannanefnd í málefnum útlendinga að störfum núna. Nei, það stóð bara í stjórnarsáttmála síðustu ríkisstjórnar en það gerðist ekki neitt. Það var bara svona kynningarstund þáverandi dómsmálaráðherra.

Löggjöfinni sem sett var 2016 var ætlað að taka mið af þörfum íslensks samfélags og tryggja um leið mannúð, skilvirkni og farsæla móttöku þeirra sem hingað leita. Þingmannanefndin sem þá var leitaði upplýsinga, leitaði til sérfræðinga í málaflokknum, leitaði til háskólasamfélagsins, talaði við notendur kerfisins og þeirra sem hafa verið að vinna í málinu en hér virðist ekkert samráð vera. Þetta er bara lagt fram aftur og aftur undir því yfirskini að um sé að ræða skilvirkni. En við þurfum að forðast þá stefnu Sjálfstæðisflokksins í málefnum fólks á flótta að gera allt sem við getum til að skella öllu hér í lás, að greiða leið þeirra sem eru ofurríkir, með ofboðslega menntun, sem koma hingað með fyrirtækin sín, og skella í lás fyrir fólk, börn, eldra fólk, fjölskyldufólk í leit að vernd, fólk sem er á flótta undan stríði, hungursneyð, náttúruhamförum og sárafátækt.

Allt á þetta að búa til skýra og gagnsæja lagasetningu en það er ekkert tillit tekið til ástandsins í heiminum. Vandi fólks á flótta hverfur ekki þó að ríki eins og Ísland herði löggjöf sína og loki dyrunum. Það er alveg sama þó að við herðum okkar löggjöf, staða flóttafólks í Grikklandi batnar ekkert við það. Staða flóttafólks í Grikklandi batnaði heldur ekki þegar talíbanar tóku völdin í Afganistan. Staða flóttafólks á götunni í Grikklandi batnaði heldur ekki þegar neyð Afgana minnkaði. Staða flóttafólks á götunni í Grikklandi minnkaði heldur ekki þegar stríðið í Úkraínu braust út.

Frú forseti. Það er brýnt og aðkallandi að smíða góða og vandaða og sanngjarna umgjörð um málefni fólks á flótta. Það getur skipt sköpum fyrir íslenskt samfélag að vel sé að þessum málum staðið því að okkur vantar fólk. Við þurfum að vera fleiri til þess að standa hér undir grunnþjónustunni. Okkur vantar fólk á öllum stigum samfélagsins. Og fólk á flótta er alls konar fólk, með alls konar bakgrunn, alls konar menntun, þekkingu og reynslu. Við þurfum slíkt fólk á Íslandi. Það að byggja hér múra mun ekki skila okkur neinu. Engu. Það mun bara ýta undir fátækt, alls konar fátækt, samfélagslega og andlega. Ég skora á þingmenn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs að styðja ekki þetta andstyggðarmál.