152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[20:05]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér er hv. þm. Helga Vala Helgadóttir, sem er nú lögfræðimenntuð, að mínu mati að rugla algerlega saman málum. Hún er hér komin út í tilfinningarök sem gjarnan eru dregin upp í þessari umræðu sem standast auðvitað enga skoðun. Að ræða það hér að þeir sem eru í lífshættu, þeir sem sæta ofsóknum og þeir sem eru í stríði fái ekki vernd og þeim sé vísað úr landi er auðvitað bara alrangt eins og við þekkjum. Nýjasta dæmið er auðvitað það hvernig við stöndum að því að opna hér dyr fyrir fólki frá Úkraínu þar sem er stríð og alvarleg lífshætta vofir yfir fólki. Verndarkerfið gengur út á það að veita — þetta er neyðarkerfi á alþjóðavettvangi — fólki í raunverulegri neyð ákveðinn rétt. Þetta frumvarp veikir ekki rétt umsækjenda. Þetta veikir rétt eða breytir réttindum þeirra sem hér hafa fengið málsmeðferð með lögmann sér við hlið allan tímann og í gegnum allt stjórnkerfið og á grundvelli ákveðinna ástæðna hafa þeir ekki fengið dvöl hér, ekki af því að verið er að senda þá til ríkja þar sem lífshætta (Forseti hringir.) og aðrar ógnir vofa yfir þessu fólki, langt því frá. (Forseti hringir.) Við erum að vísa þessu fólki til landa sem við þekkjum öll (Forseti hringir.) og þar sem lífsgæði eru með því besta sem þekkist í heiminum.