152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[20:08]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Öll lönd Evrópu sem fylgja þeim sömu reglum og við erum að innleiða í þessu frumvarpi líta á Grikkland sem öruggt land. Öll lönd Evrópu, þar á meðal Norðurlöndin, vísa fólki þangað hafi það hlotið þar vernd eða er þar með umsókn um vernd í málsmeðferð. Þannig að hv. þingmaður, sem kemur nú úr röðum Samfylkingarinnar og lofar hér gjarnan og biður fyrir aðild að Evrópusambandinu, er í rauninni að fordæma það regluverk sem gildir í þessum draumalöndum hennar. Við erum ekkert annað að gera með þessu frumvarpi en að færa okkur nær þeirri málsmeðferð sem er á Norðurlöndum. Og að reyna að halda því fram að hér sé um eitthvert ómannúðleg skref að ræða þar sem ekki sé verið að gæta að réttindum fólks, þar sem við séum ekki að uppfylla sáttmála Sameinuðu þjóðanna um vernd fólks á flótta, er auðvitað hráskinnaleikur. Og þegar ég talaði um tilfinningarök, (Forseti hringir.) og það var farið í að snúa út úr því, eins og vera ber af hv. þingmanni, þá hefur það ekkert með það að gera að ég beri ekki þær tilfinningar, (Forseti hringir.) sterkar tilfinningar til fólks sem er í þeim vanda, (Forseti hringir.) bara alls ekki. Þetta hefur bara með það að gera að við séum að hér að styðja við málsmeðferð (Forseti hringir.) sem eykur einmitt þjónustuna við þetta fólk.