152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[20:09]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er verið að skerða hér möguleika fólks til að færa fram sönnur fyrir máli sínu á aðstæðum sínum í heimalandinu og aðstæðum þeim sem það hefur búið við í því ríki sem það kom fyrst til á leiðinni til Íslands. Það er verið að skerða möguleika þessa fólks til þess að sýna fram á þær aðstæður sem það hefur búið við. Það er nefnilega þannig að stundum lendir fólk líka í sjálfheldu í því ríki sem það kemur fyrst til á flótta sínum, ýmist vegna aðstæðna á götunni eða vegna persónulegra aðstæðna. Fólk hefur verið selt í þrældóm, í kynlífsvinnu og alls konar viðbjóð á flótta en við ætlum ekki að opna umsóknir þeirra af því að þau voru einhvers staðar annars staðar áður. Við ætlum ekki að skoða mál einstaklinga eins og okkur ber samkvæmt lögum. Okkur ber (Forseti hringir.) samkvæmt lögum að passa að endursenda fólk ekki í aðstæður þar sem líf þess og heilsa er í hættu.