152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[20:11]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit ekki alveg hvernig ég á að koma á eftir þessum andsvörum ráðherrans. Tilfinningarökin kannski, það að tala niður tilfinningarök í tengslum við frumvarp þar sem eitt af markmiðunum er að standa vörð um mannúð. Af hverju stöndum við vörð um mannúð? Er það ekki bara út af einhverjum tilfinningarökum? Af hverju virðum við mannréttindi? Það eru bara tilfinningarök fyrir því. Það eru bara fín rök. En það setur hlutina í samhengi. Hvernig ráðherrann talar sýnir að gamla setningin um að Dyflinnarreglugerðinni sé beitt þegar kostur er, sem stóð í greinargerð þessa frumvarps forðum daga, hún er enn þá svífandi yfir öllu í þessu frumvarpi. Það á að smyrja endursendingarvélina þannig að allt þetta fólk sem gríska verndarkerfið verndar ekki sé endursent án þess að það sé einu sinni hreyft við málum þess. (Forseti hringir.) Ef það kveikir ekki á tilfinningum hjá fólki (Forseti hringir.) sem skoðar frumvarpið, þeim tilfinningum að þetta sé ógeðslegt frumvarp sem eigi helst heima í tætaranum, (Forseti hringir.) þá er það fólk sem les ekki rök.