152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[20:14]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Í andsvari við hv. þm. Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur sagði ráðherra að í frumvarpinu væri verið að reyna að gæta hagsmuna þeirra sem hingað koma og eru í raunverulegri þörf fyrir vernd. Hvernig vitum við hverjir eru í raunverulegri þörf þegar hluta er bara hent úr landi án þess að skoða þeirra mál? Og af hverju þarf endilega að búa til einhvern hóp góðra flóttamanna sem ráðherra vill verja og slæmu flóttamannanna sem á að senda til Grikklands án þess að spá í hvort þau hafi raunverulega þörf á vernd? Skjólið sem Ísland getur veitt fólki sem flýr hingað úr verndarkerfinu í Grikklandi er skjól frá ólíðandi ómannúðlegum aðstæðum. Að ráðherra málaflokksins láti eins og það fólk hafi einhverjar annarlegar hvatir að baki umsóknum sínum er mjög varasöm orðræða, frú forseti.