152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[20:16]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur fyrir hennar innlegg í þessa umræðu. Ég sendi skriflega fyrirspurn til hæstv. dómsmálaráðherra fyrir stuttu þar sem ég spurði út í hlutfall þeirra einstaklinga sem sækja hér um vernd sem hafa þegar fengið alþjóðlega vernd, innan gæsalappa, í öðru ríki og óskaði eftir sundurliðun á grundvelli þess ríkis þar sem viðkomandi hefur fengið vernd. Niðurstaðan er sú að í fyrsta lagi er fjöldinn ekki nándar nærri jafn sláandi og hæstv. dómsmálaráðherra lætur í veðri vaka í sinni ræðu, að þetta sé gríðarlegur fjöldi sem þurfi að sporna við. Ég veit ekki betur en að u.þ.b. 1.500 einstaklingar hafi sótt um vernd það sem af er þessu ári og að það gangi allt vel fyrir sig. Árið 2021 voru 187 einstaklingar með vernd í öðru ríki sem sóttu um vernd hér á landi. Árið 2020 voru það 341, sannarlega fleiri. (Forseti hringir.) Árið 2019 voru það 207. Langflestir þessara einstaklinga (Forseti hringir.) koma frá Grikklandi og Ungverjalandi. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Telur hún það vera tilviljun?