152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[20:19]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Sannarlega er það ekki tilviljun að fólk haldi áfram að leita að vernd þegar það lendir í aðstæðum líkt og flóttafólki er boðið upp á í Ungverjalandi og Grikklandi fyrst og fremst. Það eru líka erfiðar aðstæður í ríkjum á borð við Ítalíu og Búlgaríu og samt er þeir bara teljandi á fingrum annarrar handar þeir einstaklingar sem þó þaðan koma.

Mig langar til að leiðrétta eitt sem kom fram í máli hæstv. dómsmálaráðherra hér áðan þar sem hann talaði um að öll önnur Evrópuríki vísuðu fólki til baka sem fengið hefðu vernd í öðru ríki, þar á meðal í Grikklandi og Ungverjalandi. Þetta er ekki rétt að því leytinu til að önnur ríki hafa verið að beita, þótt erfitt sé að finna tölur um það, banni við endursendingum þangað þar sem líf fólks eða frelsi er í hættu, að senda fólk ekki til baka til þessara ríkja. Þessum ákvæðum, sem eru líka til í íslenskum lögum, var aldrei beitt hér á landi og það er ástæðan fyrir því að þessi ákvæði sem hæstv. dómsmálaráðherra vill núna afnema úr íslenskum lögum voru sett inn árið 2016. Það var vegna þess að Ísland veitti (Forseti hringir.) þessu fólki ekki hina minnstu áheyrn. Og það er ekki rétt hjá hæstv. dómsmálaráðherra (Forseti hringir.) að það sé þannig í öðrum Evrópuríkjum.