152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[20:21]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er svo hjartanlega sammála hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur um að það er allt of mikið af fólki á flótta í heiminum, það er allt of mikið af fólki sem er að flýja ömurlegar aðstæður, og ég er sammála því að Ísland eigi að gera vel þegar kemur að móttöku flóttamanna. Mig langar að spyrja hv. þingmann út í varðandi það að alveg gríðarlegur fjöldi er á flótta og það er fólk sem hefur fengið vernd í ýmsum löndum þar sem ástandið er svo sannarlega misjafnt, vegna þess að mér fannst það ekki koma fram í ræðu hv. þingmanns: Telur hv. þingmaður að við eigum að taka á móti öllum þeim sem hafa fengið vernd annars staðar? Ég spyr hv. þingmann: Telur hún í rauninni að hér eigi bara að vera alveg opin landamæri? Ég gat ekki alveg skilið (Forseti hringir.) á ræðu hv. þingmanns hvernig hún sæi kerfið fyrir sér, hvort hún vildi kerfi, (Forseti hringir.) þótt ég sé sammála henni um að ástandið sé hræðilegt í heiminum.