152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[20:23]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið sem mig grunar að sé hugsað til að ná fram skýrri afstöðu um að það er ekki allt eða ekkert í þessum málum, alls ekki. Það er ekki þannig að þeir sem tala fyrir mannúð og málefnum fólks á flótta vilji annaðhvort galopna öll landamæri eða hafa þau algjörlega lokuð. Ég þakka þess vegna hv. þingmanni kærlega fyrir að spyrja að þessu. Það sem hér er verið að tala um er að umsóknir þeirra sem hafa mögulega fengið einhvers konar stimpil um vernd án þess að hafa vernd í öðrum ríkjum séu skoðaðar, að það sé raunverulega skoðað hverjar aðstæðurnar eru, hverjar persónulegar aðstæður einstaklinganna eru sem hrekjast alla leið hingað til Íslands, af því að það er um það sem þetta snýst. En því miður er verið að skerða réttindi fólks hvað þetta varðar með þessu frumvarpi.