152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[20:36]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í þessu frumvarpi er verið að leggja til að án undantekninga verði þeir sem fengið hafa vernd í öðru ríki sem er aðili að Dyflinnarreglugerðinni endursendir án efnislegrar meðferðar á sínu máli. Það er bara alveg skýrt í þessu frumvarpi; engar undantekningar, ekkert tillit tekið til aðstæðna fólks, ekkert tillit tekið til fötlunar, ekkert tillit tekið til þess hvort viðkomandi er í viðkvæmri stöðu, ekkert tillit tekið til þess hvort viðkomandi er með barn, ungabarn, á sínu framfæri, ekki vitund tekið tillit til þess. Það á bara að senda fólk beint út á götuna í Grikklandi. Það er það sem hv. þingmaður er að tala fyrir hér í þessum sal, í þessum ræðustól, að sé ásættanlegur fórnarkostnaður fyrir stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Þetta er það sem hún er að gera akkúrat núna. Það er bara mjög skýrt að þetta er það sem mun taka við flóttamönnum ef þessi ríkisstjórn fullkomnar þennan óskapnað, þennan verknað sinn. Ég ætla að spyrja hv. þingmann hvernig hún, sem ég veit að hefur mannúð í hjarta sér, getur réttlætt þennan viðbjóð.