152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[20:44]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé ekki einu sinni hægt að vera svo bjartsýnn að segja að þessum ákvæðum hafi ekki verið beitt sem séu samt svo skýr og ættu að leiða til þess að mál verði tekin til efnismeðferðar. Ástæðurnar fyrir því að reglu um bann við endursendingu fólks þangað sem líf þess og frelsi er í hættu er ekki beitt þegar fólk hefur fengið vernd í öðru Evrópuríki eru pólitískar, vegna þess að íslensk stjórnvöld munu ekki fallast á að líf fólks eða frelsi þess sé í hættu í öðru ríki. Það getur verið jafn borðleggjandi og við höfum séð mörg dæmi um, en það er ekki að fara að gerast. Svo ná þessi mál ekki að fara fyrir dómstóla vegna þess að dómstólar endurskoða ekki þetta mat stjórnvalda. Mér þykir leitt að hryggja hv. þingmann en þetta er ekki nóg. Þetta er ekki nóg. Þetta ákvæði sem hefur verið í lögum alla tíð. Það er verið að afnema þessa heimild. Það er verið að tryggja það að einstaklingi sem hefur fengið vernd í öðru Evrópuríki verði snúið við á þröskuldinum án þess að nokkurra spurninga sé spurt . Og það er ástæðan fyrir því að þetta var sett inn árið 2016. Það er verið að eyðileggja með einu pennastriki góða vinnu sem var unnin hér í pólitískri sátt.