152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[20:45]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það má nánast halda út frá sumum ræðum sem hafa verið fluttar að hér fái bara enginn að koma inn fyrir landamærin og enginn fái vernd. Það er auðvitað ekki svo. Sem betur fer tökum við á móti fullt af fólki á flótta. En ég held að við getum tekið á móti enn fleirum. Ef það er svo að það þarf að hnykkja betur á því að verndin sé virk fyrir þau sem eiga að falla undir það, sem eru í til að mynda viðkvæmum hópum, þá finnst mér hið besta mál að á því sé hnykkt í nefndaráliti að farið sé eftir þeim atriðum sem sett eru inn í lög, því að auðvitað viljum við að þannig virki kerfið. Til þess erum við með lögin. Þannig að ég beini því bara til hv. allsherjar- og menntamálanefndar að um leið og hún skoðar þetta allt saman sé hnykkt á því að þeim lögum sem eru í gildi sé fylgt.