152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[20:50]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður gat þess auðvitað ekki í sinni ræðu að þessar undanþágur sem hún las þarna upp eiga ekki við um ákveðin mál. Í ákveðnum málum er það bara þannig að barnshafandi konur, fatlaðir einstaklingar, alvarlega veikir einstaklingar eru sviptir framfærslu og húsnæði, alveg sama hvað. Þetta frumvarp, hvað snýst það um? Það snýst um það sem ég fór yfir. Það snýst um að undanskilja umsækjendur um alþjóðlega vernd frá ákveðnum lágmarksréttindum sem borgurum eru tryggð í stjórnsýslulögum. Þetta snýst um að útiloka fólk sem hefur hlotið alþjóðlega vernd í ríkjum eins og Grikklandi og Ítalíu, ríkjum sem ráða ekki við straum flóttamanna þangað, frá því að fá alþjóðlega vernd á Íslandi. Hér stígur þingmaður Vinstri grænna upp í pontu glottandi og segir að það gangi á ýmsu í þessu ríkisstjórnarsamstarfi. Það er svo ótrúlega sorglegt og ógeðfellt að verða vitni að þessu. Það gengur á ýmsu. Já, já.