Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[20:57]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Meðan við erum með einhvers konar kerfi um móttöku flóttafólks en erum ekki bara með opin landamæri þar sem allir geta komið hingað — og eins og ég skildi hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur í fyrra andsvari þá er það ekki stefna Samfylkingarinnar að hafa alveg opið kerfi heldur þurfi einmitt að leggja mat á umsóknir og stöðu fólks — þá verðum við að hafa aðila sem við getum treyst til að fara yfir umsóknirnar. Ég er alveg sammála því að það er gríðarlega vandmeðfarið að fara yfir það hvernig sjúkdómum eða fötlun eða öðru er háttað. En það er mat sem verður að vera hægt að treysta stofnunum fyrir. Ef það kerfi er ekki nógu gott þá snýst það í mínum huga ekki um það að hætta að vera með eitthvert kerfi heldur að bæta kerfið og kalla til sérfræðinga ef með þarf. Það þarf að hafa kerfið þannig, eins og ég hef ítrekað sagt hér, að við treystum því að verið sé að framfylgja þeim lögum sem við höfum sett.