152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[21:01]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Já, ég tel líka mjög mikilvægt að hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra komi hingað til að gera grein fyrir máli sínu, ekki síst vegna þeirra raka sem fram hafa komið í máli hæstv. dómsmálaráðherra og hv. þingkonu Steinunnar Þóru Árnadóttur þess efnis að það sé allt of mikið af flóttamönnum hérna, að við megum bara ekkert við þessu. (SÞÁ: Ha?) Þetta er bara hræðilegt. (Gripið fram í.) — Þ.e. hæstv. dómsmálaráðherra, hv. þingmaður, og vangaveltur hv. þm. Steinunnar Þóru Árnadóttur um hvort við eigum nú bara að hafa opin landamæri, við getum ekki tekið á móti öllum. Það væri þá bara gott að heyra frá hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra hvað við getum tekið við mörgum, hvort þau hafi einhvern tíma lagt mat á það hvað við þurfum eiginlega á miklu af fólki að halda hérna. Hver er þjónustugeta hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra miðað við þau rök sem fram hafa komið í þessari umræðu? Það er enginn að tala um opin landamæri hérna. En mögulega ættum við að velta því fyrir okkur hvað við getum tekið af ábyrgð í alþjóðlegu samhengi akkúrat núna þegar þörfin er mest.