152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[21:02]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Enn og aftur er nauðsynlegt að leiðrétta þann misskilning sem svífur hér yfir vötnunum hjá lögspekingum minni hlutans. Þetta frumvarp fjallar ekki um réttindi þeirra sem eru í umsóknarferli um vernd og þá þjónustu sem þeim er veitt. Þetta frumvarp fjallar bara akkúrat ekkert um það. Þetta frumvarp fjallar fyrst og fremst um það sem tekur við þegar sá sem er að sækja um vernd hefur fengið synjun. Eftir sem áður hljóta allir hér málsmeðferð þótt öðru hafi verið haldið fram. Mál allra eru skoðuð. Þrátt fyrir að þeir komi frá og séu þegar með vernd þar sem við teljum örugg ríki þá eru einstök mál skoðuð í grunninn.

Virðulegi forseti. Það er alveg ótrúlegt að þessum rangfærslum skuli vera ítrekað haldið fram í þeim eina tilgangi að reyna að blekkja þá sem eru að fylgjast með þessari umræðu. (ArnG: Til hvers?)