152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[21:25]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að ausa úr sínum viskubrunni í þessum málaflokki, sem er töluverður og skiptir mjög miklu máli inn í þessa umræðu. Það er því miður verið að flengjast um með ýmiss konar rangfærslur í þessum málum. Mig langar að spyrja hv. þingmann út í það sem hún er að ræða varðandi það að töf, sem ekki má kenna umsækjanda um alþjóðlega vernd um, verði á málinu. Kannast hv. þingmaður við að upp hafi komið mál, ekki eitt heldur fleiri, þar sem um er að ræða töf sem rekja má til seinagangs lögreglu við afgreiðslu mála er varða vegabréf fólks í leit að alþjóðlegri vernd þar sem málarekstur dróst mun lengur en eðlilegt má ætla að sé varðandi svo einfalt mál? Ekki var um að ræða töf sem umsækjandinn bar ábyrgð á, en að stjórnvöld hafi metið þetta sem töf sem rekja megi til seinagangs eða töf sem einstaklingurinn beri ábyrgð á — man hv. þingmaður eftir slíkum dæmum?

Í öðru lagi vil ég spyrja hv. þingmann út í b-lið 1. gr. frumvarpsins þar sem verið er að breyta ákvæði, skilgreiningu á umsækjanda um alþjóðlega vernd, þ.e. að við 25. tölul. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: „Útlendingur telst ekki umsækjandi um alþjóðlega vernd þegar hann hefur fengið endanlega niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi“, að þar með sé hann ekki lengur umsækjandi heldur útlendingur. Og þá veltir maður fyrir sér hvernig 5. gr., þ.e. breyting á 33. gr., getur fallið undir 33. gr. þar sem umrædd grein varðar umsækjendur um alþjóðlega vernd. Er þetta ekki lagalegur óskapnaður og veldur óskýrleika og misskilningi í meðferð mála?