152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[21:49]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar og fyrir hennar framlag til umræðunnar í dag. Það er mjög gaman að hlusta á hana og fleiri þingmenn hér, t.d. annan góðan lögfræðing, Helgu Völu Helgadóttur, ræða þessi mál sem þær þekkja betur en mörg okkar, m.a. ég. Ég hygg reyndar að Ísland sé alls ekki eina landið sem misbeitir Dyflinnarreglugerðinni til að reyna einmitt að losa sig við — létta af sér fólki sem sækist eftir vernd. Ég held að það sé jafnvel nokkuð útbreidd skoðun í Evrópu varðandi Dyflinnarsamstarfið að það þurfi að endurskoða ýmislegt af því sem þar var lagt upp með og að ýmislegt þar sé komið til ára sinna. Þannig að svarið við spurningu hv. þingmanns er væntanlega já.