152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[22:10]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Aðeins áfram í þessari grein, þ.e. 33. gr. laganna. Sú grein fjallar um þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd. Það er kominn ákveðinn lagalegur ómöguleiki af því að verið er að breyta skilgreiningunni á umsækjendum um alþjóðlega vernd þannig að um leið og fólk er komið með endanlega niðurstöðu í máli sínu telst það ekki lengur umsækjandi um alþjóðlega vernd. Samt er þetta ákvæði undir þeim kafla laganna, þannig að þarna þarf hv. allsherjar- og menntamálanefnd að fara að taka rækilega til. Varla getur þetta staðið þarna ef einhver á að botna eitthvað í þessum lögum, ef þau verða einhvern tímann samþykkt.

En af því að hv. þingmaður fer alltaf að tala um einhverja sem eru endursendir þá er hér verið að tala um þá sem eru ekki endursendir heldur bara einstaklinga sem hafa verið hér með umsókn um alþjóðlega vernd, mögulega beint frá þriðja ríki, ekki Dyflinnarmál heldur hafa bara fengið endanlega synjun, og um er að ræða einstakling sem er alvarlega veikur en getur mögulega annast sitt daglega líf, séð um sig, eins og var talað um í greinargerðinni. Þá veltir maður fyrir sér í ljósi sögunnar, þegar þungaðri konu á 36. viku meðgöngu er skutlað upp í flugvél og hún látin fljúga í 19 klukkutíma, hver er það sem metur hver er alvarlega veikur og hver er ekki alvarlega veikur, hver er til þess bær að annast þarfir sínar og hugsa um sig? Hvað felst í þessu?