152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[22:22]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég hnaut aðeins um það sem hann var að tala um varðandi þetta háttalag íslenskra stjórnvalda að ákveða að þeir einstaklingar sem hafa fengið meinta vernd í öðru ríki Evrópu, sem er aðili að þessu svokallaða Dyflinnarsamstarfi, fái sjálfkrafa enga þjónustu hér á landi eða aðstoð eða skjól. Það er einmitt það sem ég var að reyna að koma hv. þm. Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Steinunni Þóru Árnadóttur, í skilning um, þ.e. að um leið og stjórnvöldum sem fara með þennan málaflokk er gefið svona víðtækt vald til að meta aðstæður þá virðist vera sem það sé alltaf fyrsta svar að læsa, að loka þangað til búið er að slengja fram öllum mögulegum ábendingum. Og jafnvel þá er ekki opnað. Það er alltaf fyrst „nei“ áður en málin eru skoðuð. Maður veltir fyrir sér að þegar augljóst er að einstaklingar eru að koma frá ríki þar sem eru mjög bágar félagslegar aðstæður, þar sem einstaklingar eru í viðkvæmri stöðu o.s.frv., með börn eða fjölskyldumeðlimi sem þurfa einhverja aðstoð, hvernig hv. þingmanni litist á ef við myndum gera a.m.k. tilraun til þess í einhvern tíma að hafa ekki alltaf viðmótið „nei“ í forgrunni heldur hugsa mögulega: Gætum við auðgað samfélagið okkar með því að skoða stöðu einstaklinga sem hafa leitað verndar í öðrum ríkjum, að skoða raunverulega aðstæður þessa fólks?