152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[22:30]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég held að það megi segja að útlendingamálin og staða fólks á flótta sé í vaxandi mæli stórpólitískt efni í samfélagi þjóðanna, fólk á flótta og fólk í leit að vernd, og ég held að í Evrópu séum við meðvituð um það, ekki síst núna við þær aðstæður sem eru í Úkraínu, hver saga þessa fólks gjarnan er. Við erum meðvituð um að tugir milljóna manna eru á flótta í heiminum í dag og myndin er og verður skýrari í huga fólks en oft áður um þá neyð sem þarna liggur að baki, eins og ég nefni, við þær aðstæður sem núna eru uppi. Samt eru það alltaf sögurnar af einstaklingum sem hreyfa við okkur og sögurnar af einstaklingum sem rata í fjölmiðla sem snerta okkur mest, frekar en þessar stóru tölur, þótt þær séu í sjálfu sér ógnvænlegar og sorglegar.

Við þekkjum það líka frá Íslandi, af fréttaflutningi í gegnum tíðina, af sorglegum sögum fólks, fullorðinna og barna, fólks sem hefur sótt skjól á Íslandi og síðan höfum við heyrt af ákvörðunum Útlendingastofnunar sem hafa framkallað reiði í garð hennar. Í þeim fréttaflutningi vill gjarnan gleymast að ábyrgðin er stjórnvalda. Stofnanir framfylgja lögum og stefnu stjórnvalda. Auðvitað er svigrúm fyrir mat í ákvörðunum stofnana og ég ætla ekki að undanskilja Útlendingastofnun alveg, en mér hefur stundum fundist halla á hana eða gæta gleymsku í garð þess að hún fylgir stefnu stjórnvalda.

Ég nefndi það í andsvari við hæstv. dómsmálaráðherra fyrr í kvöld að þetta frumvarp kemur nú fram í aðeins breyttri mynd í fjórða sinn og hefur ekki náð fram að ganga. Kjarnaskilaboðin í greinargerðinni þegar frumvarpið kom fram síðast voru um einfaldari málsmeðferð og skilvirkni. Þegar greinargerðin var lesin eins og hún lá fyrir síðast, þessi skilaboð um einfaldari málsmeðferð, þessi skilaboð um skilvirkari málsmeðferð gagnvart því fólki sem hlotið hafði alþjóðlega vernd annars staðar áður en það kom hingað, þá blasti nú dálítið við hvað væri í reynd verið að segja.

Þessi greinargerð finnst mér ekki alveg jafn skýr um hin undirliggjandi markmið. En þegar maður fer að skoða greinarnar þá sýnist mér, alla vega við fyrstu yfirferð, að hér sé í reynd sama pólitík að baki. Ég velti því fyrir mér hvort hér sé verið að boða frekara framhald á sögum eins og einni sem mig langar til að segja hér og ég hef sagt áður í þessum ræðustól, af sýrlenskri konu sem vann í leikskólanum Vinagarði. Henni var vísað til Grikklands vegna þess að hún hafði hlotið alþjóðlega vernd þar áður en hún kom hingað til lands. Íslensk yfirvöld höfnuðu því að taka mál þessarar konu til efnismeðferðar þar sem Grikkland var sagt öruggt ríki. Ég man eftir því að hafa lesið frétt þessarar konu fyrst á mbl.is. Þar kom nefnilega fram að konan vann á leikskólanum Vinagarði og hafði unnið þar í rúmlega hálft ár að sögn Maríu Sighvatsdóttir aðstoðarleikskólastjóra sem sagði hana hafa náð vel til barnanna. Ég ætla að leyfa mér að vitna í þessa frétt, með leyfi forseta, í það sem aðstoðarleikskólastjórinn sagði um þessa konu:

„Hún hefur ofboðslega góða nærveru, er áhugasöm og lagði sig mikið fram við að kynnast starfinu. Það var gott að vinna með henni, ég lærði mjög margt af henni. Hún kenndi börnunum og lærði svo af okkur og þeim líka. Þannig að allir græddu á vinnu hennar hér. Hennar er virkilega sárt saknað.“

Eins og ég nefndi hef ég áður, jafnvel í tvígang, sagt þessa sögu hér. Ég játa að hún situr aðeins í mér vegna þess að dóttir mín var einu sinni í þessum leikskóla, ekki á þessum tíma, en það varð til þess að ég las þessa frétt með öðrum gleraugum. Þegar maður hugsar um þessa sögu út frá aðstæðum á Íslandi, ekki bara út frá hennar aðstæðum, þá getur maður spurt sig: Var ástæðan sú að fækka þyrfti starfsfólki í leikskólum Reykjavíkurborgar? Það vantar jú fólk í marga leikskóla, ekki bara í Reykjavík heldur víða um land. Var ástæðan sú að konan gæti ekki hugsað sér að vinna í þessum leikskóla? Hún vildi helst af öllu halda áfram að vinna við að sinna börnunum. Var ástæðan sú að hún væri ekki góður starfskraftur? Hún var mikils metin af starfsfólki, var mikils metin af börnunum og hún var mikils metin af foreldrum þeirra. Börnin, og þetta kom fram í fréttinni, kvöddu hana síðan öll hvert og eitt með því að faðma hana en án þess að vita að í framhaldi kvaddi hún líka Ísland.

Hvað var það þá sem hún gerði vitlaust? Það var nú kannski ekki annað en það að hún hafði upplifað stríð í sínu heimalandi, Sýrlandi, og hún hafði síðan ekki komið beinustu leið til Íslands á flótta sínum heldur fyrst til Grikklands. Fréttirnar sögðu sorglega sögu þessarar konu, sem er nafnlaus í fjölmiðlum, og aðstæðna hennar, og eins og ég segi, konu sem ég ekki þekki en tengdi við bara út af nafni leikskólans. Íslenska sagan sem börnin í Vinagarði munu heyra þegar fram líða stundir er sorgleg en sorgleg á annan hátt en saga þessarar konu því að þetta er sagan af því hverjar aðstæður geta stundum verið á Íslandi gagnvart fólki í neyð. Þannig að ég spyr aftur, eins og ég gerði þegar síðasta útlendingafrumvarp ríkisstjórnarinnar kom fram: Getur verið að þetta frumvarp sé að boða það að vísa fólki úr landi sem þegar hefur fengið alþjóðlega vernd annars staðar, sama hvert ríkið er? Getur það verið? Getur það verið að við munum halda áfram að vísa fólki t.d. til Grikklands þrátt fyrir að vita hverjar aðstæðurnar þar eru? Við þekkjum það, ég ætla að leyfa mér að ítreka það. Við þekkjum hverjar aðstæðurnar eru sem bíða fólksins í Grikklandi.

Forseti. Ég nefndi það í byrjun að rauði þráðurinn í greinargerðinni sem við sáum með frumvarpinu eins og það var lagt fram hér síðast, var að afraksturinn yrði skýrari málsmeðferð og gagnsæ. Ég var þeirrar skoðunar þá að það væri pólitíkin að baki greinargerðinni líka, skýr og gagnsæ, en hún var ekki í þeim anda sem ég vil sjá í þessum efnum. Greinargerðin sem fylgir þessari útgáfu frumvarpsins er öðruvísi. Hún er ekki jafn skýr um markmiðin, að mér finnst, hún talar ekki svo mikið um Dyflinnarreglugerðina en ég fæ ekki betur séð en að tillögurnar, a.m.k. hvað þetta atriði varðar, um móttöku fólks sem hefur fengið vernd í öðru landi, sama hvar það er, verði þessar, þ.e. að það eigi ekki að taka slík mál til efnismeðferðar. Í greinargerðinni segir um þetta atriði, þ.e. að hverju er stefnt, með leyfi forseta:

„Frumvarp þetta mælir því fyrir um að horfið verði frá því að umsóknir þessara einstaklinga verði teknar til efnislegrar meðferðar á grundvelli undantekninga 2. mgr. 36. gr. útlendingalaga …“

Það hlýtur að þýða að ekki verði skoðaðar umsóknir þess fólks sem þegar hefur hlotið alþjóðlega vernd annars staðar, óháð því hvar það er. Það finnst mér vera stóra atriðið, hvort það eigi að líta til þess hvort það sé eitthvað í reynd á bak við þennan titil og þann merkimiða að vera komin með alþjóðlega vernd.

Greinargerðin fjallar líka um að verndarkerfið þurfi að vera í stakk búið og byggt upp með þeim hætti að þeir sem eiga raunverulega rétt á alþjóðlegri vernd fái skjóta og mannúðlega afgreiðslu mála sinna og það sé nauðsynlegt að tryggja að misnotkun á kerfinu sé í lágmarki. Ég tek undir það að verndarkerfið þarf að vera í stakk búið og á að vera byggt upp þannig að það nái að taka utan um þá sem raunverulega þurfa á að halda. En áhyggjuefni mitt í þessu frumvarpi er hvar línan er dregin í þeim efnum. Þar finnst mér spurningin kannski vera hvort við ætlum að vera hluti af lausninni eða hvort við ætlum að vera hluti af flóttamannavandanum með þeirri leið sem við veljum.

Það er rétt að forgangsraða og það er nauðsynlegt að forgangsraða og það á að forgangsraða í þágu þeirra sem eru á flótta. Það er fólkið sem er í mestri þörf og með því að fókusera á þann hóp verðum við hluti af lausninni í stað þess að vera hluti af vandanum. En eins og ég segi, ég staldra alltaf við þennan punkt um það hvort við ætlum að vinna þessi mál bara eins og vélmenni eða hvort það sé eitthvað raunverulega á bak við vinnulag okkar annað en skilvirkni.

Nú er til meðferðar enn á ný frumvarp hér á Alþingi, og í þetta sinn frá hæstv. dómsmálaráðherra Jóni Gunnarssyni, um útlendingamál. Það felur í sér breytingar á útlendingalögum og er aðeins breytt frá þeim frumvörpum sem hér hafa verið til meðferðar, greinargerðin lýsir því. Ég viðurkenni að ég átta mig ekki fyllilega á öllum þessum breytingum. Mér hefur ekki gefist tóm til að fara þannig yfir frumvarpið eða skýringar við einstakar greinar. Mér sýnist þó að um þetta atriði sé staðan óbreytt. Rökstuðningurinn hefur verið sá að fólk sem þegar hefur fengið vernd í öðru landi sé ekki í hópi þess fólks sem sé í raunverulegri þörf fyrir vernd hérlendis.

Ég man eftir því þegar við vorum að ræða þessi mál hér síðast þá vorum við með í höndunum fína og greinargóða og vandaða umsögn frá Rauða krossinum sem benti á þá staðreynd að það væri óalgengt að það fólk sem fengið hefði alþjóðlega vernd hefði hlotið hana í ríkjum Norður-Evrópu, það væri óalgeng mynd. Þar kom fram að stærsti hópurinn kæmi frá Grikklandi, kæmi frá Ítalíu, kæmi frá Ungverjalandi, þar sem aðstæður flóttafólks þykja óviðunandi. En ég hef áhyggjur af því og staldra við það að skilvirknin og einföld málsmeðferð geti trompað önnur markmið sem eru jafn mikilvæg og í mínum huga raunar mikilvægari. Það þarf að vera jafnræði, það er óskastaða að ná fram skilvirkum og góðum málsmeðferðartíma í þessum málum eins og raunar öðrum kerfum sem hæstv. dómsmálaráðherra fer fyrir, en það hefur með fjárveitingavaldið að gera. Það er mikilvægt, svo sannarlega, að stytta málsmeðferðartíma og ég held nú reyndar að ég sé í hópi þeirra þingmanna sem hafa hvað oftast talað um það hér í þessum sal á undanförnum árum, en í samhengi við réttarkerfið. En það getur ekki verið þannig og það er ekki þannig, það er ekki þannig þegar við lesum fréttirnar og heyrum umfjöllun úti í þjóðfélaginu, að það sé skilvirknin sem mest hefur truflað almenning þegar fólki hefur verið vísað í burtu. Styttri málsmeðferðartími er ekki eina svarið. Styttri málsmeðferðartími er ekki stóri sannleikurinn ef niðurstaðan er að öðru leyti vond. Þetta er ekki sjónarmið eða markmið sem getur slegið öll önnur út af borðinu.

Ég er þeirrar skoðunar að það þurfi að gilda skiljanlegt og skýrt regluverk og það eigi að fara fram mat á aðstæðum fólks sem hingað leitar eftir vernd, og það eigi að forgangsraða í þágu þeirra sem raunverulega þurfa á að halda. Til þess er þetta kerfi. Verndarkerfið þjónar þeim tilgangi sem við þekkjum öll hver er. Það er verkefni og það er ekkert endilega einfalt og hæstv. dómsmálaráðherra ekki öfundsverður af því að draga línuna í þeim efnum. Við viljum taka á móti fólki og við viljum líka geta gert það vel. En ef það er markmiðið að létta á kerfinu sem á í reynd að sinna því að mæta fólki sem er að koma hingað vegna þess að það er á flótta, þá gæti ein leið til þess verið að skapa aðrar leiðir fyrir fólk til að koma hingað til lands, að létta þannig á kerfinu í staðinn fyrir að loka, að fækka kannski umsækjendum, sem einhverjir eru, sem koma hingað til lands einfaldlega vegna þess að þeir eru að sækja sér betra líf, að það verði auðveldara fyrir fólk utan Evrópu að koma hingað og sækja sér vinnu. Við sjáum að það er verið að stíga ákveðin skref í þeim efnum núna af hálfu ríkisstjórnarinnar og það er vel, ég fagna því, en hér er hægt að stíga fleiri skref og stærri.

Það segir í greinargerð um þetta mál að það sé nauðsynlegt að útlendingalöggjöfin sé löguð að þeirri þróun og þeim áskorunum sem verndarkerfið stendur frammi fyrir í dag og ég vona að hæstv. dómsmálaráðherra fari af stað í þessa vinnu og þessa umræðu núna með opinn huga og hafi það hugfast að hraðinn og einfaldleikinn verði ekki á kostnað þess sem við viljum að Ísland standi fyrir í samfélagi þjóðanna.