152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[22:46]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir prýðisgóða ræðu. Ég staldraði við eitt sem hv. þingmaður sagði í ræðu sinni þegar hún velti upp spurningunni um hvort við værum tilbúin að senda fólk til hvaða lands sem er. Mig langaði einmitt að ræða hluta af þessu frumvarpi sem hefur heldur ekki fengið mjög mikla athygli. Það er verið að gera ákveðna breytingu. Það er verið að lögfesta ákveðið atriði sem ég tel að verði þess valdandi að hægt verði að senda fólk nánast hvert sem er. Ég vísa hér í umsögn frá Rauða krossinum á Íslandi um þetta frumvarp, bls. 8, þar sem kemur fram, með leyfi forseta:

„Þar til á síðasta ári hefur beiting undanþága frá meginreglu 1. mgr. 36. gr. útl[endingalaga] um að taka skuli umsóknir um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar takmarkast við mál þar sem móttökuríkið er eitt af Schengen-ríkjunum eða aðildarríkjum að Dyflinnarsamstarfinu.“

Sem sagt: Mál sem heyra undir Dyflinnarreglugerðina, sem Schengen-ríkin eru skuldbundin af, hafa fallið undir c-lið, þ.e. hægt er að endursenda fólk sem hefur fengið vernd í Schengen-ríkjunum. Þannig hefur það afmarkast hvert við erum tilbúin að senda fólk sem þegar hefur fengið vernd. En þetta var þangað til á síðasta ári. Nú heldur umsögnin áfram, með leyfi forseta.

„Í kjölfar nokkurs fjölda umsókna einstaklinga með ríkisfang í Venesúela sem einnig hafa mismikil tengsl við önnur ríki, einkum önnur ríki Suður-Ameríku, hóf Útlendingastofnun að synja umsækjendum í slíkum málum um efnismeðferð með vísan til a-liðar 1. mgr. 36. gr. útl[endingalaga]. Í greinargerðum talsmanna Rauða krossins til Útlendingastofnunar og kærunefndar útlendingamála hefur þessari framkvæmd verið harðlega mótmælt. Að teknu tilliti til þess hve óskýrt og umdeilanlegt núverandi ákvæði a-liðar 1. mgr. 36. gr. útl[endingalaga] er, og þess að hingað til hefur ekki tíðkast að beita undanþáguákvæðum ef ekki er um Schengen ríki að ræða, hefur talsmönnum Rauða krossins brugðið [vegna þess] hve viljug stjórnvöld hafa verið til að beita ákvæðinu í fyrrnefndum tilvikum.“

Sem sagt: Það sem stendur til að gera núna er að lögfesta þessar tilraunir Útlendingastofnunar til að senda fólk til annarra ríkja í Suður-Ameríku þótt engir móttökusamningar séu til staðar þar. Það er ekkert kerfi í kringum það að endursenda fólk. Samkvæmt greinargerðinni er ekki einu sinni gerð krafa um að móttökuríkið sé aðili að flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna. (Forseti hringir.) Þannig að ég velti því upp hvort hv. þingmaður geti einu sinni látið sér detta í hug takmörk þessarar ríkisstjórnarinnar, hvert þau eru tilbúin að senda fólk á flótta.