152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[22:52]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eitt atriði varðandi þetta verklag og þessa framkvæmd sem verður til hjá Útlendingastofnun. Auðvitað veltir maður því fyrir sér hversu mikið hún mótast í tómarúmi og hversu mikið hún mótast í samhengi við stefnu stjórnvalda. Þar kem ég aftur inn á það sem ég nefndi hérna áðan, að mér hefur stundum fundist eins og umræðan sé þannig að Útlendingastofnun standi ein að þeirri framkvæmd útlendingamála sem hér hefur tíðkast. Hún er auðvitað virkur þátttakandi þar en hún á heima í því regluverki sem henni hefur verið skapað.

Ég vona bara að við meðferð málsins í allsherjarnefnd í kjölfar þessarar umræðu verði stjórnarliðar með á því hver önnur markmið frumvarpsins eru og hver þau ættu að vera. Þar kemur fram að mikilvægt sé að stjórnsýslan geti brugðist við þróun málaflokksins á hverjum tíma þannig að verndarkerfið ráði við að afgreiða á mannúðlegan hátt þann fjölda umsagna sem hingað berst. Þegar maður er að tala um hvernig þróun málaflokksins er á hverjum tíma má t.d. hugsa til þess hverjar aðstæður eru í Evrópu núna, hvaða rödd við viljum vera, hvaða hlutverki við viljum gegna o.s.frv.

Mér hefur fundist mikilvægt að við getum rætt þetta frumvarp út frá stóru myndinni og út frá hlutverki Íslands í þeim efnum. Ég ætla að ítreka þau orð að mér finnst gott að hæstv. dómsmálaráðherra sitji hér alla umræðuna en að hann taki þá punkta sem hér hafa komið fram í umræðunni, leggi við hlustir og reyni að mæta þeirri gagnrýni sem hér hefur verið sett fram.