Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[22:54]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég hjó eftir dálitlu sem hv. þingmaður sagði sem mér fannst hitta naglann akkúrat á höfuðið, sem var spurningin: Viljum við vera hluti af lausninni eða viljum við vera hluti af vandanum? Það er nefnilega þannig með þetta frumvarp að það er að gera okkur hluta af vandanum.

Hæstv. dómsmálaráðherra lagði áherslu á það í máli sínu hér áðan að við værum þarna að aðlaga löggjöf okkar að því sem tíðkast í Evrópu, og að einhverju leyti hefur hæstv. ráðherra rétt fyrir sér hvað það varðar þó að önnur Evrópuríki séu að beita ákvæðum í þessum málum sem við gerum ekki, sem gerir það að verkum að þetta ákvæði er nauðsynlegt hér á landi, þ.e. reglurnar eins og þær eru.

Hitt er að það sem er verið að breyta með þessum breytingum er ekki vandamálið. Það er ekki verið að leysa neitt vandamál með þessum breytingum. Það er verið að auka á vandann. Það er verið að flækja kerfið. Mörg þessara lagaákvæða eru illa orðuð, þau eru óljóst orðuð og þau eru til þess fallin að minnka skilvirkni og sannarlega skerða réttindi fólks á flótta, þó með þeim hætti að það mun bara kalla á frekari málaferli og flækjur fram og til baka í þessu kerfi á meðan vandinn sem þarf að leysa snýst um að það er ekki verið að virða réttindi fólks á flótta. Það er verið að horfa á þetta frá röngu sjónarhorni, því sjónarhorni sem hér hefur verið lýst ítrekað, að sumir umsækjendur séu bara hér undir fölsku flaggi og eitthvað. Það er þetta sem er vandamálið í þessu kerfi.

Við gætum verið hluti af lausninni með því að viðurkenna það og átta okkur á því og vinna frekar hugarfarsbreytingar á þessu kerfi, (Forseti hringir.) í fyrsta lagi. Ég er svo sem sammála því að sennilega þarf að skýra ákveðin ákvæði til að laga þá framkvæmd (Forseti hringir.) sem því miður hefur orðið mjög slæm. En þetta er ekki leiðin.