152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[22:57]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Mér finnst áhugavert að heyra hv. þingmann lýsa því að hún telji að lagaákvæðin sem verið er að leggja til í þessu frumvarpi séu óljós. Ef við leyfum okkur að vera sjúklega leiðinlegir lögfræðingar í samtali getur það eitt og sér auðvitað skapað vandamál sem eru ekki bara flókin hvað varðar túlkun heldur einmitt varðandi kostnað. Það ætti því alltaf að vera sjálfstætt markmið, ekki bara hjá leiðinlegum lögfræðingum, að hafa lagatextann skýran.

Varðandi skilvirknina og kostnaðinn, sem helst nú gjarnan í hendur, var ég er líka hugsi yfir því þegar við lásum það fyrir ekki svo löngu síðan að ekki ætti að gera áframhaldandi samning við Rauða krossinn um þjónustu í þessum efnum. Ég verð nú að játa að ég man ekki alveg hvernig það mál stendur núna en þar fannst manni svo augljóst að sú breyting myndi alltaf verða til þess að lengja í málsmeðferðinni þegar Útlendingastofnun væri komin í þá stöðu að þurfa að hafa í hvert og eitt sinn samband við lögmann, einhvern úti í bæ sem væri upptekinn eða flinkur eða ekki flinkur. Hvað yrði um þau hundruð mála sem voru í pípunum og féllu á milli við þessi umskipti? Tökum sem dæmi Neyðarmóttökuna, en þar liggur fyrir þekking á því og jafnvel listi yfir lögmenn sem eru vanir að taka að sér ákveðin mál. Það er orðið til ákveðið stofnanaminni sem skapar skilvirkni, sem dregur úr kostnaði og sem bætir þjónustu. Ég held að margt af því sem getur einmitt stuðlað að skilvirkni og lægri kostnaði sé einfaldlega að virða regluverkið og leyfa þeim fagmönnum sem hafa reynsluna, hafa þekkinguna, eiga þetta stofnanaminni — að kippa þessum breytum ekki öllum úr sambandi.